Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Nefndin telur að Ágúst hafi brotið siðareglur

11.12.2018 - 18:56
Mynd með færslu
 Mynd: Hreiðar - RÚV
„Siðanefnd kemur með úrskurð þar sem hún veitir Ágústi áminningu og telur að hann hafi brotið siðareglur. Það tökum við auðvitað alvarlega,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar var áminntur af siðanefnd Samfylkingarinnar fyrir að áreita konu í sumar. Hún segir að frásögn þingmannsins sé ekki rétt. Ágúst segir að frásagnirnar byggist á ólíkri upplifun.

Logi segir að ekki sé gott að tvennum sögum fari af málinu. „Þetta er alvarlegt atvik. Ágúst stóð að sinni yfirlýsingu sjálfur, við sáum hana ekki áður en að hún birtist. Síðan kemur þessi hlið málsins. Trúnaðarnefndin hafði auðvitað frásögn þeirra beggja og fjallar um málið út frá því,“ segir Logi.

Er þetta tilefni til afsagnar þingmennsku? „Ég held að þingmaður verði að horfa í eigin barm þegar hann verður uppvís að svona hlut. Það er einmitt ástæðan fyrir því að við settum á laggirnar trúnaðarnefnd og létum fagfólk fara með málið, til þess að ég þyrfti ekki að horfa á geranda sem liðsfélaga eða annað,“ bætir Logi við.

Ágúst Ólafur tilkynnti á föstudag að hann ætlaði í tveggja mánaða leyfi frá þingstörfum eftir að hafa fengið áminningu frá trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar fyrir ósæmilega hegðun gagnvart konu í sumar. Þar lýsti hann sinni hlið málsins. Konan, Bára Huld Beck, steig fram í morgun með pistli á Kjarnanum þar sem hún starfar sem blaðamaður.

Í pistlinum segir Bára að í ljósi þess að Ágúst Ólafur kjósi að gera minna úr atvikinu en hann hafi áður gengist við finni hún sig knúna til að að greina frá því sem sé rangt í yfirlýsingu hans. Hún segir að Ágúst Ólafur hafi reynt að kyssa hana ítrekað þrátt fyrir að hún hafi neitað honum og sett skýr mörk. En í hvert sinn sem hún hafi neitað honum hafi hann niðurlægt hana. Henni fannst hún algjörlega niðurlægð og var misboðið vegna ítrekaðra ummæla hans um vitsmuni hennar og útlit.

Enn hefur ekki náðst í Ágúst Ólaf þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fréttastofu. Hann sendi frá sér stutta tilkynningu eftir að pistill Báru birtist í morgun þar sem hann segir að ætlunin hafi aldrei verið að rengja hennar frásögn eða draga úr hans hlut. Misræmið sem hún reki byggist á ólíkri upplifun. Þá segir hann að hann sé að leita sér faglegrar aðstoðar vegna hegðunar sinnar og róta hennar.