Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Nefndin fær oftar svar en upp er gefið

Mynd: skjáskot / skjáskot
Íslensk málnefnd heldur á vefsíðu sinni skrá yfir málfarsábendingar sem hún sendir fyrirtækjum. Nýlega fór nefndin að vekja sérstaka athygli á því með rauðu letri þegar ekkert svar berst. Athugun Spegilsins leiddi í ljós að fyrirtæki og stofnanir eru ekki jafn gjörn á að hunsa nefndina og vefsíðan gefur til kynna.

Hamskipti Flugfélags Íslands eru flestum enn í fersku minni. Margir höfðu skoðun á því þegar nafni félagsins var breytt í Air Iceland Connect og sumir gerðu grín að því. Færri tjáðu sig um nýtt nafn kaffistofunnar á Listasafni Íslands. 

Vilja að Menntamálastofnun vandi sig á Facebook

Íslensk málnefnd hefur á þessu ári sent frá sér þrjár ábendingar. Í janúar gerði hún athugasemdir við ummæli forstjóra Menntamálastofnunar. Stofnunin sá um PISA-könnun í vetur og sætti sú könnun gagnrýni vegna þess hversu mikið var um stafsetningarvillur í prófinu. Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, sagði að ekki mætti hengja sig í smáatriði. Það skipti miklu meira máli að efla lesskilning og orðaforða. Málnefndin áréttar að vanda verði til allra atriða sem snerta íslenskt mál. Þar séu stafsetning og greinarmerkjasetning ekki undanskilin. Þá sér málnefndin ástæðu til þess að taka fram að skrif Menntamálastofnunar á Facebook verði að vera á vönduðu máli. Í bréfinu segir: „Því miður er það útbreiddur misskilningur að nota megi lélegra mál og óvandaða stafsetningu á samfélagsmiðlum. Opinber stofnun á aldrei að sýna tvö andlit, hefðbundið og óhefðbundið. Hennar andlit út á við á ávallt að sýna fulla virðingu fyrir tungumálinu.“ Á vef málnefndar segir að ekkert svar hafi borist frá Menntamálastofnun. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Arnór Guðmundsson.

Forstjóri Menntamálastofnunar, segir bréf málnefndar hafa verið stílað á ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytis með afriti á Menntamálastofnun. Hann geti ekki séð af efni bréfsins að þar sé gert ráð fyrir svari af hálfu Menntamálastofnunar enda hafi stofnunin áður skilað greinargerð um flest málefnin sem rakin eru í bréfinu. Hvað varðar athugasemdir nefndarinnar við orðfæri stofnunarinnar á Facebook segir hann að nefndin og Menntamálastofnun líti ólíkum augum á þann miðil. Nefndin líti svo á að þetta sé formlegur vettvangur en stofnunin vilji leyfa sér að eiga þar í óformlegum samskiptum. 

Leynikaffihúsið hennar mömmu

Málnefnd þótti tilefni til þess að bregðast við nýju nafni kaffistofunnar á Listasafni Íslands. Í texta á vef málnefndar segir: „Íslenskri málnefnd barst athugasemd um að kaffistofa Listasafns Íslands hefði fengið heitið Mom's Secret Café“.

Þetta gæti útlagst sem Leynikaffihúsið hennar mömmu.

Mynd með færslu
 Mynd: Listasafn Íslands

Formaður málnefndar hafði samband við þáverandi safnstjóra sem benti á að rekstur kaffistofunnar hefði verið boðinn út. Málnefndin lét sér þau svör ekki nægja. Í samantekt á vefsíðu hennar segir að á heimasíðu safnsins sé að finna upplýsingar um kaffistofu en þar komi hvergi fram að einhver annar en Listasafnið sjái nú um reksturinn.

Sagði nafnið ekki safninu til sóma

Formaður ritaði bréf til Listasafnsins þann 11. janúar og benti á að enskt nafn kaffistofunnar samræmdist á engan hátt stöðu safnsins sem eins af merkustu söfnum þjóðarinnar í flokki með Þjóðminjasafni Íslands og Stofnun Árna Magnússonar. Listasafn Íslands sé þjóðlistasafn og því fylgi allnokkur ábyrgð. Það ætti því hið fyrsta að velja nýtt nafn á kaffistofuna sem væri safninu til meiri sóma en það heiti sem nú er notað. Vísað er í lög um stöðu íslenskrar tungu þar sem fram kemur að íslenska sé opinbert mál á Íslandi. Á vef málnefndar segir að bréfinu hafi ekki verið svarað. Spegillinn hefur þó undir höndum tölvupóst sem Halldór Björn Runólfsson, fyrrverandi safnstjóri, sendi Guðrúnu Kvaran, formanni málnefndar í febrúar. Þar segir að starfsmönnum safnsins hafi brugðið þegar þeir sáu að heitið var hvarvetna komið á auglýsingaspjöld og framan á afgreiðsluborð en þeir hafi fengið lítið að gert. „Við vonum að íslensk málnefnd skilji aðstæður okkar en álasi okkur ekki fyrir vandræði sem liggja utan okkar lögsögu," segir í bréfinu. Harpa Þórsdóttir, nýr safnstjóri, bendir á að í þrjátíu ár hafi á safninu hangið neonskilti upp á vegg með áletruninni Café. 

Þykir vænt um nafnið

Halldór segir í samtali við Spegilinn að það sé synd að Listasafnið hafi ekki getað rekið kaffistofuna áfram, reksturinn hafi verið of þungur og því boðinn út. Engar kvaðir voru í samningi Listasafnsins og Mom's secret café um nafngiftir. Halldór segist hafa spurt eiganda kaffihússins, Laufeyju Baldvinsdóttur, hvort til greina kæmi að breyta nafninu en hún hafi ekki verið tilbúin til þess. Laufey rekur kaffihúsið ásamt dóttur sinni. Hún greinir Speglinum frá því að sér þyki ósköp vænt um nafnið enda saga á bak við það. Laufey notar uppskriftir frá móður sinni heitinni og hún sagði oft að þetta eða hitt væri svona „mom's secret". Kaffihúsið er uppi á annarri hæð, svolítið falið. Mér fannst þetta bara eiga svo vel við, segir Laufey. Ferðamenn sækja kaffihúsið mikið og Laufey segir þá áhugasama um sögu nafnsins, enginn hafi gert athugasemdir við að kaffihúsið heiti ensku nafni.

Segir Wow air brjóta lög með ensku öryggisávarpi

Mynd með færslu
 Mynd: WOW air
Skúli Mogensen, forstjóri Wow air.

Þriðja ábending þessa árs lýtur að flugfélaginu Wow air. Þann 6. apríl síðastliðinn sendi nefndin félaginu bréf þar sem gerð er athugasemd við það að farþegum félagsins séu einungis kynntar öryggisleiðbeiningar á ensku. Þetta er í andstöðu við lög um stöðu íslenskrar tungu, segir í bréfinu. Á vef málnefndar segir sem fyrr að ekkert svar hafi borist. Svanhvít Friðriksdóttir, samskiptastjóri Wow air, upplýsti Spegilinn um að bréfinu hefði verið svarað formlega þann 3. maí síðastliðinn. Í bréfinu þakkar Wow málnefndinni ábendinguna en bendir á að félagið starfi á alþjóðlegum markaði og verði að taka mið af því í starfsemi sinni. Mikill meirihluti farþega 80-90% sé erlendur og því eðlilegt, einkum með tilliti til öryggissjónarmiða að ávörp um öryggismál séu á ensku. Íslenskum farþegum standi ávallt til boða að óska eftir frekari skýringum. Þegar stór hluti farþega er íslenskur er ávarpið haft á íslensku. 

Segir tölvupóst duga

Fálæti fyrirtækja og stofnana í garð Íslenskrar málnefndar var líka áberandi í fyrra ef marka má vefsíðu málnefndar. Nefndin gerði athugasemdir við ný upplýsingaskilti á Keflavíkurflugvelli þar sem enska var höfð á undan íslensku. Þá gerði nefndin athugasemdir við að matseðlar Icelandair væru einungis á ensku. Hún skrifaði bréf til innanríkisráðuneytisins, Icelandair og Isavía en fékk að sögn engin svör.

Ármann Jakobsson, varaformaður íslenskrar málnefndar, segir að nefndin telji sig vera að sinna skyldum sínum með því að senda þessar ábendingar en fái sjaldan svör, tölvupóstur dugar að hans mati. Spegillinn spurði hann út í svarið frá fyrrum safnstjóra Listasafnsins og hann sagðist ekki hafa heyrt af því. Formanni virðist allavega ekki hafa þótt tilefni til þess að breyta skráningu á vefsíðunni. 

Engin viðurlög þó lög séu brotin

Hann segir að málnefndinni þætti ekki leitt að finna fyrir auknum stuðningi stjórnvalda við störf sín. Þorgeir Ólafsson, upplýsingafulltrúi Menntamálaráðuneytisins, segir að ábendingum nefndarinnar hafi ekki verið fylgt eftir eða fyrirtæki krafin svara þegar ekki berast svör. Þá liggi engin viðurlög við því fari fyrirtæki og stofnanir ekki að lögum um íslenska tungu. 

Þrjár milljónir á ári

Íslensk málnefnd fær framlög af svokölluðum safnliðum menntamálaráðuneytisins. Það er fé sem Alþingi hefur látið ráðuneytinu eftir að ráðstafa. Nefndin fær um þrjár milljónir á ári og er það fé notað til þess að greiða fyrir nefndarstörf, þátttöku í erlendu samstarfi, útgáfur og fleira.

Menntamálaráðherra skipar málnefnd til fjögurra ára í senn og í henni eiga sæti 16 menn.  Hlutverk málnefndar er að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli og gera tillögur til ráðherra um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Málnefndin getur átt frumkvæði að ábendingum um það sem vel er gert og það sem betur má fara við meðferð íslenskrar tungu á opinberum vettvangi.