Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Nefndarmenn lúta eftirliti stórra stofnana

14.07.2014 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður vinnuhóps forsætisráðherra um eftirlitsstofnanir var framkvæmdastjóri verðbréfafyrirtækis sem fékk alvarlegar athugasemdir frá Fjármálaeftirlitinu árið 2007. Fleiri í hópnum hafa þurft að lúta eftirliti stórra eftirlitsstofnana.

Forsætisráðuneytið tilkynnti í síðustu viku að skipaður hefði verið vinnuhópur sem hefur það hlutverk að fara yfir lög, reglur og stjórnsýslu mikilvægra eftirlitsstofnana. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er gert ráð fyrir að hópurinn meti hvað séu góðir starfshættir eftirlitsstofnanna, með erlendar fyrirmyndir að leiðarljósi. Í framhaldinu er áformað að fjallað verði um einstakar eftirlitsstofnanir.

Mörg tengd eftirlitsskyldum fyrirtækjum
Formaður vinnuhópsins er Skúli Sveinsson lögmaður. Hann var framkvæmdastjóri NordVest verðbréfa 2004 - 2008. Ein helsta eftirlitsstofnun landsins, Fjármálaeftirlitið, gerði alvarlegar athugasemdir við starfshætti hjá fyrirtækinu árið 2007.

Í vinnuhópnum er einnig Garðar G. Gíslason lögmaður. Hann hefur sinnt lögmannsstörfum fyrir Samherja, meðal annars í því máli sem sprottið er af rannsókn gjaldeyriseftirlits Seðlabankans. Þá hefur hann verið verjandi í sakamálum sem hafa verið höfðuð eftir kæru annars eftirlitsaðila, skattrannsóknarstjóra. Garðar er ennfremur varamaður í stjórn tryggingafélagsins Sjóvár, sem er undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins.
Garðar hefur þó jafnframt mikla reynslu hinum megin borðsins því hann starfaði hjá skattrannsóknarstjóra í 15 ár, þar af sem staðgengill skattrannsóknarstjóra í átta ár.

Jóhanna María Sigmundsdóttir alþingismaður situr líka í vinnuhópnum. Hún er jafnframt bóndi við Ísafjarðardjúp. Sú starfsemi lýtur eftirliti einnar stærstu eftirlitsstofnunar landsins, Matvælastofnunar.

Fjórði nefndarmaðurinn er Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis hf., fyrirtækis sem er líka undir eftirliti Matvælastofnunar. Katrín sat einnig um tíma í stjórn Glitnis banka sem Fjármálaeftirlitið hafði eftirlit með.

Síðustu tveir nefndarmennirnir eru Gísli M. Auðbergsson, lögmaður á Eskifirði, og Jón Gunnarsson alþingismaður. Engar augljósar tengingar við eftirlitsstofnanir sjást hjá þeim.

Einungis ráðgjafarvinna
Forsætisráðherra segir að hópurinn eigi einungis að sinna ráðgjafarvinnu og þessi reynsla nefndarmanna sé kostur. „Á Íslandi eru nú tengsl manna það mikil að það væri alltaf, sama hver væri valinn í hvaða starf sem er, hægt að búa til einhverjar tengingar og gera þær tortryggilegar. Aðalatriðið er að þarna er valið til starfa fólk sem að hefur þekkingu á þessum málum. Hefur þekkingu og reynslu sem mun skila sér við það að veita ráðgjöf um hvernig mætti gera hlutina betur.“