Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Nefnd lögð niður og lög felld úr gildi

06.12.2011 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Starfshópur iðnaðarráðherra vill að nefnd um erlenda fjárfestingu verði lögð niður og lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri verði numin úr gildi. Ráðherra segir að stjórnvöld verði að koma sér út úr matskenndu umhverfi.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra skipaði starfshóp í október á síðasta ári, til að vinna tillögur um stefnu stjórnvalda varðandi erlenda fjárfestingu. Formaður hópsins kynnti niðurstöður hans á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs Íslands í morgun.

Þar er lagt til að Alþingi og ríkisstjórn setji fram skýra stefnu um beina erlenda fjárfestingu, þannig að dregið verði úr matskenndum vinnubrögðum stjórnsýslunnar sem nú fæli helst erlenda fjárfesta frá því að fjárfesta hér á landi, en Efnahags- og framfarastofnun Evrópu OECD metur hindranir í vegi beinna erlendra fjárfestinga innan OECD mestar á Íslandi.

Iðnaðarráðherra segir tillögur starfshópsins þarft innlegg í umræðuna um erlenda fjárfestingu hér á landi.

„Þær koma víða við, en þar er lögð mjög mikil áhersla á það að við horfum til fjölbreytni í beinum erlendum fjárfestingum, fjölbreyttari fjárfestingum heldur en við höfum kannski séð hér á Íslandi hingað til. Og það sem skiptir líka máli og er lögð á áhersla þarna eru skýrar línur, það er að segja að menn viti nákvæmlega að hverju þeir ganga hér á landi og í hverju er hægt að fjárfesta og hverju ekki og við komum okkur út úr því matskennda umhverfi sem við búum við í dag.“ 

Iðnaðarráðherra segir tillögur starfshópsins vera undirstöðu þingsályktunar sem verði lögð fram á Alþingi innan tíðar, og ráðherra vonar að samstaða náist um. Áfram verði staðinn vörður um auðlindir landsins.

Starfshópur ráðherra leggur til að nefnd um erlenda fjárfestingu verði lögð niður og lög um fjárfestingu erlendra fjárfesta í atvinnurekstri verði numin úr gildi, enda sé fjallað um hömlur á fjárfestingum í einstaka atvinnugreinum í sérlögum.

„Það sem er kannski helst gagnrýnt af þeirra hálfu varðandi lögin er þessi nefnd, og þá erum við enn að tala um þetta matskennda ferli. Þannig að það er verið að tala um að afnema það og setja skýrar leikreglur um hvað sé hægt að gera hér og hvað ekki - þannig að það þurfi ekki að fara fyrir sérstakar nefndir eða annað slíkt, hver og ein fjárfesting sem hingað kemur og passar ekki alveg inn í okkar löggjöf. Við þurfum að koma okkur út úr matskenndu umhverfi.“