Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

NBC fjallar um byssueign Íslendinga

28.05.2018 - 13:40
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
„Íslendingar er byssuglöð þjóð þar sem enginn hefur verið myrtur með skotvopni síðan 2007.“ Svona hljómar fyrirsögnin á umfjöllun fréttastofu NBC um skotvopnaeign á Íslandi og hún sett í samhengi við ástandið í Bandaríkjunum. „Okkur þætti mjög skrýtið ef einhver gæti gengið inn í næstu búð og keypt sér byssu án þess að hafa hugmynd um hvernig ætti að meðhöndla skotvopnið,“ segir einn viðmælenda NBC.

Þannig er St. Louis í Missouri borið saman við Ísland. Þar eru íbúar ögn færri en hér á landi en engu að síður voru 193 morð framin þar með skotvopnum á síðasta ári.  Enginn hafi verið myrtur með skotvopni síðan 2007 á Íslandi.

Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi lögreglunnar, segir í frétt NBC að yfirvöld hér á landi telji þetta til marks um að  byssulöggjöfin á Íslandi virki. Íslendingar myndu því glaðir veita Bandaríkjamönnum aðstoð ef eftir því væri óskað. Gunnar líkir ástandinu í Bandaríkjunum við brjálæði og skilur ekki af hverju það sé ekki stöðvað, af hverju ekkert sé gert.

Rúmlega þrjátíu byssur eru á hvern 100 íbúa hér á landi en NBC bendir á að það sé síður en svo auðvelt að verða sér úti um skotvopn. Undirbúningur og námskeið geti tekið rúmt ár, viðkomandi þurfi að standast bæði andlega og líkamlega læknisskoðun og mæta í viðtal til lögreglunnar til að útskýra af hverju hann vilji fá byssuleyfi. „Og þetta er bara fyrir venjulegan riffil. Það getur tekið 3 til 4 ár að fá leyfi fyrir skammbyssu,“ segir í umfjöllun NBC.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV