Nauðsynlegt að sigra Nígeríu

Mynd: EPA / RÚV

Nauðsynlegt að sigra Nígeríu

19.06.2018 - 10:27
Jafntefli á móti Argentínu eru frábær úrslit, sigur gegn Nígeríu er nauðsynlegur og Króatar líta mjög vel út, að mati HM-Hákonar, knattspyrnusérfræðings Núllsins. Hákon ræddi leiki helgarinnar og það sem er fram undan.

„Gegn jafn sterku liði og Argentínu er í raun ekki hægt að vera annað en sáttur,“ segir Hákon og bætir við að fyrir fram hefðu sennilega flestir sætt sig við jafntefli. Seinni hálfleikurinn var þó full lengi að líða og Argentínumenn aðeins of mikið með boltann. 

Fyrir leikinn á móti Nígeríu á föstudaginn segir Hákon líklegt að Heimir íhugi einhverjar breytingar. Jóhann Berg sé til að mynda tæpur vegna meiðsla á kálfa og svo séu auðvitað einhver spurningarmerki með Gylfa og Aron. „Við verðum að sækja til sigurs af því að við viljum fara upp úr riðlinum,“ bætir Hákon við.

Í öðrum riðlum mótsins segir Hákon mest koma á óvart hversu illa stórliðin eru að fara af stað. Núverandi heimsmeistarar, Þjóðverjar, töpuðu fyrir Mexíkó, Brasilíumenn gerðu jafntefli við Sviss og Frakkar rétt mörðu sigur á Áströlum. Mótið virðist því vera galopið en lið Króata hefur heillað Hákon mest til þessa.

Hægt er að hlusta á viðtalið við HM Hákon í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.