Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Nauðgun kærð til lögreglunnar á NA-landi

19.06.2017 - 19:09
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Nauðgun var kærð til lögreglunnar á Norðurlandi eystra í liðinni viku. Lögreglan tók yfir eitthundrað ökumenn fyrir hraðakstur á meðan Bíladagar fóru fram á Akureyri.

Lögreglan á Norðurlandi eystra sinnti um 400 málum í liðinni viku, þegar Bíladagar fóru fram. Talið er að á bilinu fjögur til sex þúsund manns hafi sótt viðburðina á Akureyri og töluverður erill var hjá lögreglu.

„En heilt yfir gekk þetta vel,“ segir Kristján Kristjánsson, yfirlögreglumaður á Akureyri. „Þó var eitt kynferðisbrotamál sem kom upp og það er náttúrulega einu máli of mikið.“ Maður handtekinn vegna nauðgunarinnar og yfirheyrður í kjölfarið. Honum var sleppt að lokinni yfirheyrslu og málið er í rannsókn.

106 voru stöðvaðir vegna hraðaksturs í vikunni, fjórir voru teknir fyrir fíkniefnaakstur og sjö fyrir ölvunarakstur. Sex voru teknir með fíkniefni í fórum sínum. Engin líkamsárás var kærð til lögreglu og engin alvarleg bílslys urðu. 

Þó umtalsverður erill hafi verið hjá lögreglunni á Akureyri virtist sem minna væri um ónæði og ólæti í bænum en oft áður á Bíladögum. „Já það var minna, en lögregla var bara mjög sýnileg. Við höfðum mikil afskipti og ég held að það hafi haft góð áhrif,“ segir Kristján.

400 mál, það hljómar mikið, en hversu mikið er það á einni viku?

„Ég hef nú ekki gert úttekt á því en ég gæti trúað að það séu kannski 250-300 mál í normal viku,“ segir hann.