Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Náttúruverndarsinnar óvelkomnir

22.06.2018 - 09:40
Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Pétur Guðmundsson frá Ófeigsfirð hefur gripið til óvenjulegra ráða í deilunni um Hvalárvirkun á ströndum. Hann hefur lokað veginum að Hvalá með því að leggja dráttarvél þvert yfir veginn sem liggur yfir tún um landareign hans. Bara þeir sem honum eru þóknanlegir fá að fara um túnið. Rætt var við hann í morgunútvarpinu á Rás 2.

Pétur segir að fyrst hafi verið byrjað að tala um virkjun í Hvalá 1916 og síðan 2007.  Rafmagnsskortur sé á Vestfjörðum og truflanir á rafmagni. 
 
„Þetta var farið að kosta fólk þarna ansi mikið og Orkubúið gerði ekkert í því að reyna að tryggja afhendingaröryggi á rafmagni og annað slíkt. Þannig að það voru nokkrir ungir menn á Ísafirði sem fannst mælirinn vera fullur og kom að máli við mig og vita hvort ég væri tilbúinn til samninga um vatnsréttindi.“
 
Undirbúningur hafi gengið ágætlega en svo varð hrun og þá tafðist verkefnið í nokkur ár. 

„Síðan dettur mönnum allt í einu í hug að þetta sé svo fallegt land þetta grjót sem er þarna að það megi ekki spilla þessu. Og öfgafullir náttúruverndarsinnar fara af stað.  Já þú vilt kalla þá það?  Já já já já þeir eru öfgafullir þessir menn það er ekki um  annað að ræða..“

Náttúruverndarsinnar hafi ekkert komið að ráði fyrr en í fyrra. Pétur segir að fólk sé velkomið að skoða. “Hinn venjulegi flækingur er velkominn. En þegar menn eru farnir að selja ferðir þarna norður og fénýta sér eign mína og fjölskyldu minnar þá finnst mér mælirinn flullur.  Og ég er að loka þessu bara fyrir örfáa menn.“ 

Pétur hefur sett dráttavél þvert yfir veginn sem liggur yfir tún um landareign hans. Aðgerðir Péturs hafa verið harðlega gagnrýndar

„Sá skítur og óþverri sem hefur verið ausið yfir mig alveg hreint síðusta ár ég er búinn að fá alveg nóg af honum.“
 
En er ekki lika hægt að líta svo á að þetta sé fólk sem þykir vænt um landið sitt og af hugmyndafræðilegum ástæðum sé á móti því að þetta sé gert?

„En þau fénýta sér ekki eigur mínar í þeim tilgangi. En hverjir eru þínir fjárhagslegu hagsmunir varðandi þessa virkjun?  Satt best að segja þá hef ég aldrei látið mér detta til hugar að fara að reikna það út. Ég veit að hreppurinn mun fá verulegar tekjur af þessu og ríkið nátturlega og  við fáum eitthvað fyrir þetta það er ekkert leyndarmál. Þeir hafa reiknað það út Tómas og þeir piltar þeir eru búnir að reikna út alveg gífurlegar upphæðir en af þessum gífurlegum upphæðum fara að minnstakosti 38% beint í skatta.“ 

En hvað finnst þér um alla þessa fossa sem eru að fara að hverfa þykir þér ekkert vænt um þá. Er ekki söknuður af þeim þeir munu að minnsta kosti breytast?

„Já breytast já. Á ég að segja þér nokkuð. Þessi venjulegi flækingur sem ég kalla þegar hann kemur þarna norður þeir sem fara þarna þegar mikið er í ánni þá tala þeir um orku. Þegar það er lítið í ánni þá eru þeir fallegir. Vegna þess að þegar mikið er í þeim þá er þetta bara hvít froða.  Þegar það er passlega lítið í þeim þá eru þeir fallegir.“
 
En hvað ætlar þú að gera ætlar þú að halda áfram að hafa dráttavélina þarn og handvelja fólk?

„Nei ég þarf að nota traktorinn en þegar ég kem þarna norður þá set ég rafta þarna fyrir sem þeir ráða ekkert við.  Fólki er velkomið að koma þarna það getur bara komð heim og talað við okkur.“

Þú ætlar að þá bara að sitja þarna við og banna þeim sumum að fara og leyfa öðrum? Já já þeir hafa ekkert að gera þarna. Ég er ekki svo fésjúkur eins og þeir vilja halda fram að ég fari að rukka þá um peninga þeir hafa bara ekkert að gera þarna. Þeir sem fara þarna norður í þeim tilgangi að afla sér stuðnings til að vinna gegn okkur þeir hafa ekkert þarna að gera það er bara hreint.“

Þú ert þess fullviss að þessi framkvæmd verði að veruleika?
„Auðvitað hún er það langt komin að hún verður ekki stöðvuð.“