Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Náttúrufegurð orðin þungavigtar efnahagsafl

Mynd: ruv.is / ruv.is
Stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands virðist vera hugmynd hvers tími er kominn. Tímamóta viljayfirlýsing náttúruverndarhreyfingarinnar, útivistarsamtaka og Samtaka ferðaþjónustunnar um málið var kynnt nýlega. Aukning þjóðartekna af hraðvaxandi ferðamannastraumi hefur orðið til þess að náttúrufegurð, sem áður var ekki reiknuð inn í umhverfismat og arðsemisútreikninga er nú „orðin þungavigtar efnahagsafl í samfélaginu,“ eins og Andri Snær Magnason rithöfundur orðar það.

Sendir öflug skilaboð

Andri Snær fór yfir þær hugarfarslegu breytingar sem nú eru að verða í afstöðu Íslendinga til náttúruverndar í Helgarútgáfunni á Rás 2. Hann segir að hugmyndin um stofnun þjóðgarðs á hálendi Íslands sendi öflug skilaboð um það hvernig við hugsum um þessa auðlind og formgeri í raun nýtingarréttinn á ósnertri náttúru landsins. Kannski mætti kalla þetta nýja landhelgismálið.

Íhugar enn framboð

Í nýlegri skoðanakönnun kom í ljós að um 60% landsmanna styðja hugmyndina um þjóðgarð á hálendinu. Andri Snær hvetur til samstöðu og telur að pólitíkin sé að vakna. Sveitarfélög hafi nú til dæmis nýjan valkost í þróun atvinnulífs utan sjávarútvegs og stóriðju.

Andri Snær var líka spurður út í hugsanlegt forsetaframboð í þættinum og sagðist enn vera að hugleiða það.

Hallgrímur Thorsteinsson
dagskrárgerðarmaður