Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Nato styður ákvörðun Bandaríkjastjórnar

29.10.2018 - 23:40
Erlent · Bandaríkin · NATO · Rússland
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Atlantshafsbandalagið styður ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að segja sig frá samningi um meðaldrægar kjarnorkuflaugar. Þetta segir varaframkvæmdastjóri NATO sem setti í dag ráðstefnu samtakanna um afvopnun og takmörkun á útbreiðslu gereyðingarvopna.

NATO hefur um áratugaskeið tekið þátt í umræðum um afvopnunarmál - ráðstefnan sem sett var í dag er nú haldin í fjórtánda skiptið  og þar verður rætt um hvernig koma megi í veg fyrir útbreiðslu og notkun gereyðingarvopna, og framtíð gildandi samninga um afvopnun. 

Rose Goettemoeller, varaframkvæmdastjóri NATO, segir að Nato-ríkin hafi staðið saman og unnið með Bandaríkjamönnum að því að treysta upphaflegu afvopnunarviðræðurnar, samning um gagnkvæma fækkun í herafla sem rædd var á leiðtogafundi í Reykjavík árið 1988. „Það leiddi til umtalsverðs samdráttar hefðbundins herafla í Evrópu 22 árum síðar. Það tók sinn tíma en hér í Reykjavík var upphafið að þeim samningum,“ segir Goettemoeller.

Bandaríkjastjórn ákvað nýlega að segja sig frá samningi við Rússa um takmörkun meðaldrægra kjarnorkuflauga. Sú ákvörðun nýtur stuðnings NATO, segir Goettemoeller. „Bandalagið hefur stutt einarðlega við markmið  Bandaríkjanna. Á leiðtogafundinum nú í júlí ræddu þeir um nauðsyn þess að Rússar svöruðu fyrirspurnum Bandaríkjamanna um nýja langdræga flugskeytið sem nefnt er 9M729 og Nato hefur hvatt Rússa til að sinna málinu og það liggur á Rússum að svara spurningum um flugskeytið. Bandalagið vonar að Rússar taki aftur upp fulla fylgni við samninga.“

Eru það réttu viðbrögðin að draga sig í hlé? „Ég tel að það komi að því að ekki verði lengra komist og Mattis varnarmálaráðherra sagði við bandalagsþjóðirnar fyrir aðeins nokkrum vikum að það yrði óverjandi ef annar aðilinn að samningnum færi eftir honum en hinn ekki.“