Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Nasista-amman“ tapar í hæstarétti Þýskalands

In this Oct. 16, 2017 photo Ursula Haverbeck arrives at the Tiergarten District Court in Berlin, Germany. Germany’s highest court has thrown out a notorious elderly neo-Nazi’s case against her conviction for Holocaust denial, ruling that her
 Mynd: AP Images
Hæstiréttur Þýskalands staðfesti í dag tveggja ára fangelsisdóm yfir Ursulu Haverbeck, tæplega níræðri þýskri konu, fyrir að afneita helförinni. Þetta er þriðji dómurinn sem Haverbeck hlýtur fyrir slíkt brot frá árinu 2015 og fyrir vikið hefur hún fengið viðurnefnið „Nazi-Oma“ þar ytra, eða „nasista-amman“.

Síðasta dóminn hlaut hún í undirrétti í október í fyrra og hóf afplánun í maí. Hún skaut niðurstöðunni til hæstaréttar eins og hún hafði gert í fyrri tvö skiptin, án árangurs.

Haverbeck er rithöfundur og í þetta sinn var hún dæmd fyrir að fullyrða að fjöldamorð nasista á gyðingum í síðari heimsstyrjöldinni væri bara kenning og að aldrei hefðu verið færðar sannanir fyrir því að í Auschwitz hefðu verið starfræktar útrýmingarbúðir.

Að þýskum lögum er refsivert að afneita helför Adolfs Hitlers og nasistaflokksins gegn gyðingum og öðrum minnihlutahópum og það varðar allt að fimm ára fangavist.

Hæstiréttur kemst að því að stjórnarskrárákvæði um tjáningarfrelsi verndi ekki rétt manna til að breiða vísvitandi út fullyrðingar sem sannað er að séu rangar. Með því að afneita helförinni hafi Haverbeck út fyrir mörk friðsamrar samfélagsumræðu og raskað almannafriði.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV