Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

NASA mælir hreyfingar jökla á Íslandi

03.02.2014 - 21:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Flugvél frá bandarísku geimferðastofnuninni NASA flýgur yfir Langjökul og Hofsjökul nokkrum sinnum í þessari viku til að mæla hreyfingar jöklanna. Notast er við nýja tækni sem þróuð hefur verið í samstarfi við íslenska vísindamenn.

Flugvél frá Bandarísku geimferðastofnuninni NASA, búin nýjum ratsjármæli rannsakar nú hreyfingar á íslenskum jöklum. Vísindamenn frá NASA hafa þróað nýju tæknina í samstarfi við  sérfræðinga við Caltech háskóla í Kaliforníu og íslenska jöklafræðinga frá Háskóla Íslands.  Vélin verður  hér í viku að þessu sinni en verkefnið hófst árið 2009.  Hún flýgur yfir  Langjökul og Hofsjökul með nokkurra klukkustunda millibili í nokkra daga og með því móti fæst samfelld mynd af hreyfingu jöklanna.

Mark Simons, prófessor í jarðeðlisfræði, segir takmarkið ekki beint að rannsaka loftlagsbreytingar. „Markmið okkar hér er í vissum skilningi ekki beint að rannsaka loftlagsbreytingar, þó áhrif þeirra komi vissulega við sögu.“

Með aðstoð gps mæla sem íslenskir vísindamenn hafa komið fyrir á jörðu niðri er hægt að gera mjög nákvæmar mælingar. Aðstæður hér á landi til að mæla jökla eru einstakar. „Það er stórkostlegt að gera þetta á Íslandi, því annars staðar, til dæmis á Grænlandi og Suðurskautslandinu, er aðgengið mun erfiðara. Minna er vitað um jöklana þar núna og enn minna vitað um hvernig þeir hegðuðu sér áður fyrr. Allt þetta er vel þekkt hér, eða tiltölulega vel þekkt.“  

Mælingarnar sem gerðar eru með nýju tækninni staðfesta niðurstöður íslenskra vísindamanna um hreyfingar jökla hér á landi. „Sumir skriðjöklanna færast að meðaltali - þegar lítið er að gerast - um marga tugi sentimetra á dag, allt upp í hálfan metra á dag. Við getum sundurliðaða myndskeið úr upptökunum sem sýna okkur að þessir jöklar skríða um 50 sentimetra á dag á sumum stöðum,“ segir Mark.