Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Námu merki frá fyrstu stjörnum alheimsins

01.03.2018 - 06:23
Stjörnufræðingar segjast hafa greint merki frá fyrstu stjörnum himingeimsins, eins og þær birtust. Segja þeir uppgötvunina algjöra byltingu. Talið er að fyrstu stjörnurnar hafi skinið um 180 milljón árum eftir miklahvell. Fram að því var himingeimurinn alsvartur og tómur.

Næstu hundrað milljón árin eftir miklahvell togaði þyngdaraflið saman ýmsar gastegundir sem féllu inn í sig þegar þær komu saman, og urðu þannig að stjörnum. Vetnisatómin urðu spennt þegar stjórnurnar lýstu upp gastegundirnar í kring, og bjuggu þá til rafsegulbylgjur, sem stjörnufræðingar hafa nú numið.

Verkefnið var einstaklega erfitt því bylgjurnar kaffærðust nærri því í rafsegulbylgjum sem eru miklu nær jörðinni. Guardian hefur eftir Andrew Pontzen, stjörnufræðingi við University College í Lundúnum, að vísindamennirnir hafi þurft að nema merki sem er umkringt um 0,01% allra rafsegulbylgna okkar eigin sólkerfis. Þetta tókst vísindamönnunum með búnaði sem er litlu stærri en stofuborð, sem settur var upp í afskekktri eyðimörk Vestur-Ástralíu. Þar eru afskaplega fáar manngerðar rafsegulbylgjur að trufla móttökuna.  Miðað við niðurstöður þeirra mynduðust fyrstu stjörnurnar fyrir um 13,6 milljörðum ára, eða níu milljörðum ára áður en sólin okkar varð til.

Þá kom einnig í ljós að lækkun tíðni rafsegulbylgjanna var tvöfalt meiri en búist var við. Bendir það til þess að alheimurinn sé talsvert kaldari en áður var talið, með eru -270 gráður á Celsius.

Í myndbandinu hér að ofan má sjá einn stjörnufræðinganna lýsa rannsókninni. Myndbandið er á ensku og ótextað.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV