Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Nám í „landsbyggðarlækningum“ í skoðun

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að ástandið á heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni sé alvarlegt og mikilvægt sé að fulltrúar stjórnvalda niður með stjórnendum þeirra og læknum. Meðal annars sé verið að skoða hvort koma eigi upp sérstöku námi í landsbyggðarlækningum.

Mikill skortur hefur verið á læknum á heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni. Sumar hafa þurft að keppast um verktakalækna til geta mannað stöður og borga þeim allt að 220 þúsund fyrir daginn. Læknafélag Íslands hefur lýst yfir miklum áhyggjum vegna þessa og hefur sent heilbrigðisráðherra bréf dagsett 7. mars. Félagið telur mikilvægt að hefja umræðu um þessa þróun og skoða hvernig hægt sé að snúa þróuninni við. Félagið lýsir sig reiðubúið til viðræðna við heilbrigðisráðherra um málið og við framkvæmdastjóra lækninga og heilbrigðisstofnanir. Heilbrigðisráðherra segir að ástandið sé mikið áhyggjuefni.

„Og ég tek undir það sem Læknafélag Íslands hefur sagt í þessum efnum. Það sem við getum gert er að styrkja og efla nám heimilislækna. Við getum komið á sérstöku námi fyrir landsbyggðarlækningar, ef svo má að orði komast; það er eitthvað sem við höfum verið að skoða. Svo langar mig að skoða sérstaklega í ráðuneytinu hvernig þessu er fyrir komið í dreifbýlli byggðum Noregs og Kanada og skoða hvort þar séu einhverjar hugmyndir  sem þar gætu fleytt okkur áfram,“ segir Svandís.

Hún segist fagna sérstaklega frumkvæði Læknafélags Íslands , þar sem hún telji rétt að fulltrúar heilbrigðisyfirvalda  fari einnig yfir þessi mál með læknum. 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV