Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Nálgunarbann staðfest í héraðsdómi

Ásdís Viðarsdóttir í Kastljósi
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur úrskurðað Erlend Eysteinsson í nálgunarbann, eftir ítrekaðar hótanir hans í garð Ásdísar Viðarsdóttur. Bannið gildir í sex mánuði og miðast við fimmtíu metra radíus í kringum heimili hennar. Þá má hann ekki hafa samskipti við hana eða nálgast hana á almannafæri.

Sagt var frá máli Ásdísar í Kastljósi í gær. Erlendur hefur ítrekað sent henni smáskilaboð með líflátshótunum og hótunum um barsmíðar. Hann er fyrrverandi sambýlismaður hennar og hefur áður sætt nálgunarbanni vegna hótana í hennar garð. Fyrir þær hótanir og brot á banninu hlaut Erlendur átta mánaða dóm 2014.

Hann var handtekinn aftur nokkrum mánuðum seinna þegar hótunum linnti ekki. Hlé varð á áreitni Erlends gagnvart Ásdísi þar til í sumar. Þá var hann aftur dæmdur fyrir líkamsárás, átta hundruð brot á nálgunarbanni, brot á barnaverndarlögum og fyrir að hafa brotið gegn blygðunarsemi Ásdísar.

Stutt í ákæru
Þá gerði Ásdís aftur kröfu um nálgunarbann en vegna mistaka hjá lögreglu vísaði héraðsdómur málinu frá. Frávísunin var kærð til Hæstaréttar sem vísaði málinu aftur í hérað. Héraðsdómur kvað svo upp úrskurð á mánudag. Málinu er þó ekki lokið því að úrskurðurinn hefur verið kærður til Hæstaréttar, samkvæmt upplýsingum frá verjanda Erlends.

Ekki hefur þó verið gefið út hvenær málið verður tekið fyrir. Þá stendur yfir rannsókn á hótunum Erlends síðastliðna mánuði og er stutt í að ákæra verði gefin út vegna þeirra, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi eystra