Nálgun Sjálfstæðisflokksins sé önnur en áður

03.12.2017 - 11:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Nálgun Sjálfstæðisflokksins er önnur í ljósi veikari stöðu hans,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, í Silfrinu í dag. Hún hafði áður talað að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn væri afleitur kostur. „Það sem hefur breyst fyrst og fremst er að síðan hafa orðið tvennar kosningar og Sjálfstæðisflokkurinn fer ekki sterkur í gegnum þessar kosningar.“

Þá sé óvenjuleg staða í pólitísku litrófi þingsins. „Við urðum að hugsa skapandi hugsanir í ljósi þess að fyrsti kostur okkar, sem var fráfarandi stjórnarandstaða, var ekki mögulegur.“

Erfitt fyrir þingmenn að biðja um meira fjármagn

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, var einnig meðal gesta Silfursins. Hann sagði að þær breytingar sem boðaðar eru í stjórnarsáttmála um stuðning við Alþingi væru ekki á forsendum þingsins. „Ef það á að efla Alþingi á að gera það á forsendum Alþingis, ekki framkvæmdavaldsins.“ Þá telur hann að í sáttmálanum sé leitað að lægsta mögulega samnefnara, frekar en að grípa „stóru tækifærin“ eins og endurskipulagningu fjármálakerfisins. „Þetta er náttúrulega vonlaus sáttmáli,“ sagði hann. 

„Ég held að það sé erfitt fyrir þingmenn að biðja um meira fjármagn í sitt starf innan þingsins þegar það er að berjast fyrir peningum í svo marga aðra málaflokka,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. „Þá er það mjög hjálplegt að ríkisttjórnin setji það í sitt stefnuplagg að ætla að bæta úr þessu“.