Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Nálgast samkomulag um sjávarútvegsmál

28.12.2016 - 19:11
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Sjálfstæðisflokkur, Björt framtíð og Viðreisn hafa nálgast samkomulag um sjávarútvegsmál, samkvæmt heimildum fréttastofu, en lengra er í land um Evrópumálin. Annars ríkir algjör þögn um stjórnarmyndunarviðræður flokkanna.

 

Tveir mánuðir eru á morgun frá Alþingiskosningunum, en enn hefur ekki verið mynduð ríkisstjórn. Þingflokkar Viðreisnar og Bjartrar framtíðar voru boðaðir til fundar í dag þar sem farið var yfir stöðu mála, en þingflokkur Sjálfstæðisflokks fundaði ekki.  Formenn flokkanna funduðu í gær.

 Eftir því sem næst verður komist hefur gefist tækifæri til að fara betur yfir þau mál sem viðræður flokkanna strönduðu á í fyrra skiptið, það voru Evrópumál og sjávarútvegsmál. Textar hafa farið á milli þingflokka til umræðu þar og reynt er að finna málamiðlanir sem flokkarnir þrír gætu unnið með út kjörtímabilið. Heimildir fréttastofu herma að flokkarnir færist nær samkomulagi um sjávarútvegsmál en enn sé ósamið um Evrópumál - það er hvort eða hvernig gengið verði til atkvæða um framtíð aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu. Auk þessara mála var rætt um önnur, sem ekki hafði náðst að ræða áður.

Þreifingar hafa sem sagt haldið áfram og málin potast áfram en engin sett tímamörk eru á viðræðunum, að því er fréttastofa kemst næst. Það er því óvíst hvort það næst að mynda nýja ríkisstjórn fyrir áramót, eða hvort það náist yfir höfuð, því þessir þrír hafa áður verið bjartsýnir á að ná saman en séð viðræður sigla í strand. Viðræður flokkanna þriggja eru óformlegar, enginn er með formlegt stjórnarmyndunarumboð, en ekki er vitað til þess að viðræður standi yfir milli annarra flokka en þessara þriggja.

Það er alls ekki útilokað að starfstjórn verði við völd þegar árið 2017 gengur í garð og að það verði Sigurður Ingi Jóhannsson sem flytji áramótaávarp forsætisráðherra. 
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV