Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Nágranni upplifði mótmælin sem ofbeldi

06.12.2017 - 19:20
Mynd með færslu
 Mynd: Halldór Sigurðsson
Mótmælin við heimili Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur vorið 2010 voru hvorki friðsæl né falleg. Þetta segir grannkona hennar, sem reyndi að koma henni til varnar.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri og þingmaður, lýsti því um helgina að setið hefði verið um heimili hennar í fimm vikur í apríl 2010. Þá hefði verið hvatt til þess að henni yrði nauðgað. Einn þeirra sem tók þátt í mótmælunum kvaðst í gær hafa skynjað ótta Steinunnar, og taldi það sennilegustu ástæðu þess að mótmælin hefðu staðið svo lengi. Þau hefðu þó verið mjög friðsæl. 

„Það var engin ógn af þessum hópi, bara venjulegt fólk eins og ég, ömmur og afar og börn líka. Við stóðum bara kyrr og sögðum ekkert. Engin spjöld og engin háreysti. Bara fallegt, fannst mér,“ segir Páll Halldór Halldórsson, sem mótmælti við heimili Steinunnar Valdísar árið 2010. Rætt var við hann í sjónvarpsfréttum í gær.

„Þetta var engan veginn fjölskyldustund“

Fréttastofa hefur rætt við fólk sem bjó í grennd við Steinunni Valdísi á Rauðalæknum í Reykjavík á þessum tíma. Það hefur aðra sögu að segja. „Fyrir mér var þetta mikið ofbeldi, mikil ögrun, þau voru með kassann upp og spjöld stundum,“ segir Ína Björk Hannesdóttir, fyrrverandi grannkona Steinunnar Valdísar. „Og svo voru þau að labba upp tröppurnar að húsinu hennar, þótt þau hefðu oftast verið inni á bílastæði fyrir utan. Þetta var engan veginn fjölskyldustund og átti ekkert barn heima þarna, hvorki með þeim eða átti barnið hennar ekki að þurfa að upplifa það sem þarna var í gangi,“ segir Ína Björk.

Óttuðust um börnin vegna mótmælanna

Mótmælin voru rædd í foreldraráði Laugarnesskóla, þar sem foreldrar höfðu áhyggjur af börnunum í hverfinu vegna ástandsins í götunni. Ína Björk þekkti grannkonu sína lítið, en ákvað samt að slást í hóp þeirra sem reyndu að verja Steinunni Valdísi. 

Mynd með færslu
Ína Björk Hannesdóttir Mynd: RÚV

Mesta ofbeldið að mótmælin hafi staðið í fimm vikur

„Þetta var fyrst og fremst andlegt ofbeldi. Í eina skiptið sem ég varð vitni að líkamlegu ofbeldi þá lenti ég í því sjálf. Þá höfðu þeir verið að taka myndir af dóttur Steinunnar og ég fer heim og næ í myndavél og fer að taka myndir af þeim. Þá var einhver sem réðist þarna að mér og sló myndavélina úr höndunum á mér og var með svona leiðinlega tilburði,“ segir Ína Björk sem telur þó að mesta ofbeldið hafi verið fólgið í því að mótmælin hafi staðið í fimm vikur.

Þarna voru einhverjir í hópnum, einhverjir sem höfðu orðið fyrir tilfinningalegu eða efnahagslegu tjóni, hefurðu einhvern skilning á því að fólk sé svo reitt að það grípi til svona aðgerða? „Nei, ég geri það reyndar ekki. Ég held að við höfum öll tapað. Ég tapaði. Ég er viss um að Steinunn Valdís hafi tapað. Ég bara skil ekki hvar samviska fólks liggur sem getur liðið svona. Ég bara skil það ekki,“ segir Ína Björk.