Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Nagladekk bönnuð en löggan sektar ekki strax

03.05.2018 - 13:38
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Fimm lögregluumdæmi sektuðu enga ökumenn vegna nagladekkjanotkunar á tímabilinu 15. apríl til 1. júní í fyrra. Samkvæmt lögum er bannað að nota nagladekk frá 15. apríl, nema í undantekningartilvikum. Aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir yfirleitt aldrei sektað í apríl.

Úr 20.000 í 80.000 króna sekt

Sektir vegna notkunar nagladekkja utan leyfilegs tíma hækkuðu umtalsvert síðustu mánaðamót, úr fimm þúsund krónum á dekk upp í 20 þúsund krónur. Samkvæmt lögum eiga þeir ökumenn sem nota nagladekk eftir 15. apríl því að greiða 80 þúsund krónur í sekt ef allir fjórir hjólbarðar eru negldir.

Í reglugerðinni segir að notkun nagladekkja sé óheimil frá 15. apríl til 31. október. Þó megi nota nagladekk utan þess tíma ef þess gerist þörf vegna akstursaðstæðna. Þær aðstæður eru ekki nánar tilgreindar. 

Engar sektir hjá fimm umdæmum til 1. júní

Afar misjafnt er eftir lögregluumdæmum, og þar með landshlutum, hvernig skráningum á þessum brotum er háttað. Samkvæmt tölum frá Ríkislögreglustjóra sem fréttastofa óskaði eftir, skráðu fimm lögregluumdæmi af níu engin brot vegna notkunar nagladekkja á tímabilinu 15. apríl til 1. júní í fyrra. Það voru lögreglan á Austurlandi, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Vestfjörðum og Vesturlandi. Lögreglan í Vestmannaeyjum skráði eitt brot. 

Sektað á Suðurlandi

Reykjavíkurborg hefur lengi barist fyrir gjaldtöku á notkun nagladekkja til að draga úr svifryksmengun. Það hefur þó ekki fengist í gegn þar sem núverandi umferðalög heimila sveitarfélögum ekki slíkt. 

Í tölum Ríkislögreglustjóra kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skráði 50 brot á tímabilinu 15. apríl til 1. júní, lögreglan á Suðurlandi skráði 20 og lögreglan á Suðurnesjum níu. Hafa skal í huga að þetta var á síðasta ári, þegar sektin var fimm þúsund krónur á hvert dekk. 

Hvergi byrjað að sekta og tilkynnt með fyrirvara

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er yfirleitt fyrst umdæma að byrja að sekta vegna nagladekkja á vorin. Guðbrandur Sigurðsson aðalvarðstjóri og yfirmaður umferðardeildar, segir að almennt sé ekki byrjað að sekta fyrr en í fyrsta lagi 1. maí. 

„Það er ákvæði um að þau séu leyfileg ef aksturskilyrði krefjast þess og því höfum við aldrei kært notkun nagladekkja í apríl. Fyrstu vikuna í maí skoðum við svo langtímaveðurspána og hvort að íbúar á svæðunum í kring þurfi að hafa áhyggjur af hálku. Ef langtímaspáin lítur vel út, þá er engin ástæða að vera á glamrandi nöglum á höfuðborgarsvæðinu,” segir Guðbrandur. Lögreglan í Reykjavík tilkynnir með nokkurra daga fyrirvara hvenær sektir vegna nagladekkja hefjast og segir Guðbrandur að það gæti hafist í lok næstu viku, þó að það sé ómögulegt að segja, enda geti veðurspár breyst. 

„Fólk myndi draga þetta fram í júní”

Varðandi tímasetninguna í lögunum, 15. apríl, segir Guðbrandur að það hafi verið ákveðið til að hvetja fólk til að fara að huga að því að taka naglana undan. 

„Fólk myndi draga þetta fram í júní ef dagsetningin væri 1. maí en ekki 15. apríl,” segir hann. Varðandi bíla á nagladekkjum innan höfuðborgarsvæðisins, sem eru að koma utan af landi eða á leið út á land, þar sem aðstæður krefjast nagladekkja, metur lögreglan hvert mál fyrir sig.  

Skilningur yfirvalda á veðuraðstæðum

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir að öryggi ökumanna skuli vera í forgangi og þar af leiðandi að vera á bíl í samræmi við aðstæður. 

„Það hefur verið skilningur lögregluyfrvalda að ef veður er með þeim hætti að nagladekk auka öryggi, er ekki verið að sekta fyrir þau,” segir hann. „Það er þó ósköp eðlilegt að sekta þegar við erum komin í rjómablíðu og spáin geri ráð fyrir henni áfram.”

Nagladekk ekki alltaf betri

Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir afstöðu stofnunarinnar alltaf ganga út frá öryggi. 

„Það eru oft aðrir valkostir en nagladekk. Það er ekki alltaf svo að fólk sé í þeirri þröngu stöðu að þurfa annað hvort að vera á nöglum eða sumardekkjum. Oft geta ónegld vetrardekk virkað jafn vel,” segir Þórhildur. Guðbrandur tekur undir þetta og segir oft álitamál hvort naglar geri meira gagn heldur en grófir vetrarhjólabarðar. 

Mikilvæg við vissar aðstæður

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segist einnig hafa skilning á því að ekki sé alls staðar þörf á nagladekkjum, það eigi þó sérstaklega við um höfuðborgarsvæðið. 

„Nagladekk eru mikilvæg við vissar aðstæður, sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins. Og fólk á að hafa bílana sína útbúna þannig að öryggi sé sem mest.”