Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Nafnlaus kosningaáróður ekki ólöglegur

11.06.2018 - 23:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekkert bendir til að nafnlausar herferðir gegn ákveðnum stjórnmálaflokkum fyrir Alþingiskosningar í fyrra og hittifyrra, hafi verið ólöglegar. Vandséð er að stjórnvöld geti grafist fyrir um hverjir stóðu að þeim.

Þetta kemur fram í skýrslu sem forsætisráðherra hefur lagt fyrir Alþingi. Þar segir að þær rannsóknarheimildi sem helst kæmu til greina væru í höndum lögreglu en þá yrði að vera uppi grunur um refsivert brot. 

Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að grípa þurfi til aðgerða til að koma í veg fyrir óeðlileg áhrif á kosningar þar sem stjórnmálasamtök, aðilar tengdir þeim eða aðilar sem dragi taum tiltekinna stjórnmálaafla geti beitt sér með óprúttnum hætti án þess að kjósendur geti áttað síg á hver eigi í hlut eða varað sig á annarlegum hvötum og hagsmunum sem kunni að búa að baki.

„Gæta þarf að því að reglur sem tryggja eiga gagnsæi fjármögnunar stjórnmálastarfsemi virki eins og til er ætlast. Sama kann að eiga við um herferðir í þágu tiltekinna málefna án þess að þær tengist tilteknum stjórnmálasamtökum. Þá væri æskilegt að í gildi væru reglur um pólitískar auglýsingar, ekki síst í aðdraganda kosninga, og óháð miðlunarformi.“

Þá er sagt að engar vísbendingar séu um að erlendir aðilar hafi komið að kosningabaráttu hér á landi, líkt og mörg önnur ríki hafa staðið frammi fyrir. Fyllsta ástæða sé þó til að vera á varðbergi. Fylgjast þurfi vel með umræðu í öðrum Evrópuríkjum um aðgerðir til að draga úr umfangi og áhrifum rangra og villandi upplýsinga og eftir atvikum fara sams konar leiðir hér á landi og þar sé verið að ræða.

Skýrsla forsætisráðherra um aðkomu og hlutdeild hulduaðila í kosningum til Alþingis.
 

Björn Friðrik Brynjólfsson
Fréttastofa RÚV