Nafnið mitt ákveðið í reykmettuðu bakherbergi

Mynd: Rætur / RÚV

Nafnið mitt ákveðið í reykmettuðu bakherbergi

22.01.2016 - 15:00

Höfundar

Óli Kárason var bara fimm ára þegar hann kom til Íslands árið 1979. Hann kom með foreldrum sínum og bróður, í hópi víetnamskra flóttamanna sem var boðið að setjast hér að. Þá höfðu Íslendingar bara tvisvar áður tekið á móti hópum af flóttafólki; Ungverjum árið 1956 og Júgóslövum árið 1959.

Samkvæmt nafnalögum þess tíma þurftu innflytjendur sem fengu íslenskt ríkisfang að taka upp íslensk nöfn. Þegar Óli er spurður að því hvernig það hafi verið ákveðið að hann skyldi heita Óli segir hann brosandi að það hafi ábyggilega verið gert einhvers staðar í reykmettuðu bakherbergi. Hann segist þó engu vilja breyta í dag. Nöfnin hafi verið valin þannig að þau væru auðveld í framburði, frekar stutt og þau hljómi vel.

Óli verður meðal viðmælenda í þættinum Rótum, sem sýndur verður á sunnudagskvöldið kemur kl. 19:45. Í Rótum er fjallað um fólk sem á rætur um allan heim en hefur sest að á Íslandi. Í þessum fjórða þætti Róta verður líka fjallað um hvernig það er að vera útlendingur á íslenskum vinnumarkaði. Þess eru mörg dæmi að útlendingar eigi í erfiðleikum með að fá starf við hæfi, jafnvel þótt þeir hafi þá menntun sem krafist er. Eins hafa margir rekið sig á að skortur á tengslaneti og sú staðreynd að þeir tali ekki fullkomna íslensku hamli því að þeir komist áfram á vinnumarkaði. Í þættinum verður líka farið í heimsókn til austurrísks afa sem eldar dýrindis súpu úr hundasúrum úr garðinum hjá sér. 

Tengdar fréttir

Lærði listir á götunni

Menningarefni

Sinn er siður í landi hverju

Einn bekkur – fjórtán tungumál

Á enn erfitt með að skilja hvað gerðist