Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Nafnbreyting auki ekki traust

16.03.2011 - 16:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Seðlabankastjóri telur að nafnbreyting á íslensku myntinni auki ekki traust á gjaldmiðlinum. Hann telur auk þess varhugavert að taka upp nýjan gjaldmiðil út frá sjónarhóli fjármálastöðugleika.

Boðað var til blaðamannafundar í Seðlabankanum í dag vegna ákvörðunar peningastefnunefndar að halda stýrivöxtum óbreyttum í 4,25 prósentum. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, var í lok fundarins spurður um aðra mögulega kosti í gjaldmiðlamálum þjóðarinnar en þau málefni voru meðal annars rædd á Alþingi í vikunni. Már segir segir bankann hafa skoðað möguleikann á upptöku nýs gjaldmiðils í desember.


Niðurstaðan úr þeirri vinnu sé sú að það geti verið varhugavert út frá sjónarhóli fjármálastöðugleika, bankakerfið verði berskjaldaðra t.d. gagnvart áhlaupum og möguleikum á að styðja bankakerfið með lausafjárfyrirgreiðslu muni fækka, jafnvel í svo litlu bankakerfi. 


Lilja Mósesdóttir, formaður Viðskiptanefndar Alþingis, sagði í Silfri Egils á sunnudag að hún vildi breyta um nafn á íslensku krónunni. Hún teldi að þannig væri hægt að auka trúverðugleika á íslenska gjaldmiðlinum.


Már segir að það hafi ekki verið skoðað að breyta um nafn enda sjái hann ekki að það breyti miklu. Traustið á gjaldmiðlum komi í gegnum efnahagsstefnu, efnahagsástand og stofnanaramma en ekki nafnið á myntinni.