Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Næstum helmingur vill ljúka ESB-viðræðum

18.01.2013 - 10:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Næstum helmingur landsmanna vill að aðildarviðræðunum við Evrópusambandið verði lokið og samningur borinn undir þjóðaratkvæði samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

48,5% prósent aðspurðra voru á þeirri skoðun. Rúm 36 prósent vildu draga umsóknina til baka og rúm 15 prósent vildu gera hlé á viðræðunum og hefja þær ekki aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mikill munur er á afstöðu fólks eftir því hvaða flokk það styður. Meirihluti framsóknarmanna vill draga umsóknina til baka og rétt innan við helmingur sjálfstæðismanna er á sömu skoðun. Hátt í 80 prósent samfylkingarfólks vill ljúka viðræðunum. Nákvæmlega jafnmargir stuðningsmenn vinstri grænna vilja ljúka viðræðunum og slíta þeim, 38 prósent.

800 manns tóku þátt í könnuninni og tóku 78 prósent afstöðu til spurningarinnar sem var: „Hvernig vilt þú að framhaldi aðildarviðræðna við Evrópusambandið verði háttað?“ Gefnir voru upp þrír svarmöguleikar: 1. Aðildarviðræður verði kláraðar og aðildarsamningurinn borinn undir þjóðaratkvæði. 2. Umsókn um aðild verði dregin til baka. 3. Hlé verði gert á á aðildarviðræðum og þær ekki hafnar aftur nema þjóðin ákveði það í þjóðaratkvæðagreiðslu.