Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Næstum andlit Icesave út á við

Mynd: RÚV / RÚV

Næstum andlit Icesave út á við

18.09.2018 - 13:16

Höfundar

„Ég hef aldrei komist eins nálægt því að vera í lífshættu eins og þarna,“ segir leikarinn Halldór Gylfason sem átti að prýða markaðssetningu Icesave í Hollandi fyrir tíu árum.

Í lok árs 2006 kynnti Landsbankinn nýja þjónustu undir nafninu Icesave. Icesave var vörumerki innlánsreikninga á netinu sem bankinn bauð upp á á breskum og  hollenskum markaði. Um mitt ár 2008 átti að blása í herlúðra í markaðssetningu þessa vörumerkis og komu meðal annarra hollenskir markaðssérfræðingar hingað til lands til að fylgja herferðinni eftir. Meðal aðalleikara hér á landi var Halldór Gylfason.

„Vorið 2008 var hringt í mig frá framleiðslufyrirtæki hér heima sem framleiðir bíómyndir, auglýsingar og allskonar og þau biðja mig að mæta í prufu fyrir auglýsingu. Auglýsingin er sem sagt bankaauglýsing, fyrir Icesave og ég hugsaði einmitt, hvaða banki það væri eiginlega? Ég er svo samþykktur í þetta hlutverk, fæ prógramm í hendur og spurður hvort ég sé laus þessa daga til þess að fara út til Hollands og svo aftur hvort ég sé laus hina dagana til þessa að fara upp á Jökulsárgljúfur og svo framvegis. Þetta hljómaði rosalega vel.“

Halldór segist hafa fengið konunglegar viðtökur þegar Hollendingarnir komu til landsins og honum hafi liðið eins og stórstjörnu. Eftir heilmiklar og dýrar veislur hafði loks komið eitthvert bakslag og hollenski hópurinn horfið á brott. „Það var hringt í mig á sunnudeginum eftir þetta, frá framleiðslufyrirtækinu og mér sagt að Hollendingarnir væru farnir og bankinn væri hreinlega með aðrar kröfur. Þeir væru ekkert ósáttir með mig, bara aðallega handritið og vildu svo sem alveg hafa mig áfram. Svo heyrði ég ekkert meir.“

 

Í Veröld sem var var birt brot úr óbirtri auglýsingu frá Icesave.
 Mynd: RÚV

Það var greinilega farið að hrikta verulega í stoðum bankans þarna um sumarið þegar upptökur áttu að hefjast en bankinn var farinn á hliðina í september. Í október skall hrunið á og í kjölfarið þróaðist milliríkjadeila á milli Íslands annars vegar og Bretlands og Hollands hins vegar um hver bæri ábyrgð á Icesave-reikningunum. „Ég hef aldrei komist eins nálægt því að vera í lífshættu eins og þarna,“ segir Halldór sem var þar ansi nálægt því að vera andlit stórrar markaðsherferðar Icesave.

En hvað var það svo í fari Halldórs sem Hollendingarnir hrifust svona að? „Ég hélt einmitt fyrst að það væri vegna þessa að ég er rosalega góður leikari og væri einmitt svona frábær, ég meina þeir prufuðu ansi marga en svo fór ég reyndar að spá í það - þetta var auglýsing sem var stíluð inn á Hollandsmarkað aðallega - og ég virðist nefnilega sláandi líkur hollenska myndlistarmanninum Rembrandt.“

Fimmti og næstsíðasti þáttur af Veröld sem var leit dagsins ljós á sunnudagskvöldið síðasta og var þar fjallað um hversu íslenska þjóðin er ávallt fljót að tileinka sér hvers konar nýjungar utan úr heimi. Símboðar, snjallsímar, telefax og tölvur. Allt var þetta komið í hendur landans á methraða.

Þáttinn má sjá í heild sinni í spilaranum.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Bjöguð ímynd íslenskrar þjóðar

Menningarefni

Þjóðin stóð á öndinni yfir Pan-hópnum

Menningarefni

Töfralækningar í Kastljósinu

Menningarefni

„Helmingur þjóðarinnar mætti“