Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Næstum 70 sentimetra kjörseðill tefur talningu

24.10.2016 - 21:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður yfirkjörstjórnar í suðvesturkjördæmi, gerir ekki ráð fyrir að talningu atkvæða ljúki fyrr en á áttunda tímanum á sunnudagsmorgun. Fjöldi utankjörfundaratkvæða og næstum 70 sentimetra breiður kjörseðill vegi þar þungt.

Alþingiskosningar fara fram á laugardaginn. 246.515 eru á kjörskrá og hefur kjósendum fjölgað um tæp fjögur prósent frá því í alþingiskosningunum árið 2013. Jónas Þór Guðmundsson, formaður yfirkjörstjórnar í suðvesturkjördæmi, segir að undirbúningur gangi vel. Hann gerir hins vegar ráð fyrir að talning atkvæða taki lengri tíma en oft áður. Þar komi tvennt til - fjöldi framboða annars vegar og mörg utankjörfundaratkvæði hins vegar, en sífellt fleiri kjósa utan kjörfundar án þess að þurfa þess nauðsynlega.

„Ef við tökum utankjörfundaratkvæðin fyrst þá er það þannig að þegar þau koma til talningar þá eru þau í umslögum sem þarf að skera upp, svo þarf að ná seðlinum úr og auðvitað telja þessi atkvæði,“ segir Jónas. „Þannig að uppskurðurinn á umslögum er seinlegur og eftir því sem þessi atkvæði eru fleiri hefur það áhrif að þessu leyti. Svo erum við með fjölda framboða og þar skiptir það máli að eftir því sem þau eru fleiri, því stærri verður kjörseðillinn. Og ef ég nefni bara það kjördæmi sem ég tengist, það er að segja suðvesturkjördæmi, þá erum við með tíu framboð núna. Og það má gera ráð fyrir því að þar verði breidd kjörseðils milli 60 og 70 sentimetrar. 

Og það tefur fyrir talningu?

„Já það gefur auga leið að því breiðari sem seðillinn er, því hægar gengur talningin.“

Hvenær megum við búast við lokatölum?

„Við höfum stundum verið bjartsýn og undanfarin ár höfum við verið að áætla í þetta heldur nauman tíma. En ég geri ráð fyrir því núna að við verðum ekki búin í suðvesturkjördæmi fyrr en einhvern tímann undir morgun.“

7-8 kannski?

„Já ég myndi skjóta á það, svona 7-8,“ segir Jónas.