Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Næstskæðasti Ebólu-faraldur sögunnar

12.02.2019 - 15:09
Erlent · Afríka · Ebóla
epa06756609 A worker from the World Health Organization (WHO) administers Ebola vaccination during the launch of an experimental vaccine in Mbandaka, north-western Democratic Republic of the Congo, 21 May 2018 (issued 22 May 2018). Two more people have
Bólusetning við ebólu. Mynd úr safni. Mynd: EPA-EFE - EPA
Tæplega 100 börn hafa látist í Kongó vegna ebólu-smits frá því að faraldur braust út í landinu í ágúst í fyrra. Faraldurinn í Kongó er nú orðinn næstskæðasti ebólu-faraldur sögunnar og fjöldi smitaðra hefur tvöfaldast á milli mánaða.

Alls eru 97 börn látin vegna ebólu-veirunnar. 65 þeirra voru yngri en fimm ára. Faraldurinn sækir hratt í sig veðrið, í janúar voru skráð að meðaltali 40 ný tilfelli á viku, en voru áður rétt um 20 á viku.

Smiti fylgir hiti, mikill höfuðverkur og stundum blæðingar úr líkamsopum. Ebólu-veiran dregur um helming þeirra sem smitast til dauða - og þeim fer fjölgandi - um 60% smitaðra hafa látist í síðustu faröldrum. 

Ebólufaraldurinn sem nú herjar á Kongó, er sá næstskæðasti í sögunni. Faraldurinn sem reið yfir Vestur-Afríku árið 2014 er sá langskæðasti, þá létust meira en 11.000 manns. Rúmlega 800 hafa smitast af ebólu í Kongó síðan í ágúst og 505 þeirra eru látin.

Heather Kerr, framkvæmdastjóri Barnaheilla í Kongó, segir í yfirlýsingu að þjóðin sé nú á krossgötum. Ef ekki verði gripið til harðra aðgerða til að hemja útbreiðslu veirunnar sé hætta á að faraldurinn herji á þjóðina allt að ár til viðbótar með ófyrirséðum afleiðingum.

Ófriður í austurhluta landsins gerir alla viðleitni til að hemja útbreiðslu veirunnar erfiðari. Miðpunktur faraldursins er í Norður-Kivu héraði. Þar berjast um 50 vopnaðar sveitir vígamanna og talið er að um milljón manns séu á flótta vegna ófriðarins. Allt þetta fólk getur hæglega borið með sér smit á milli landsvæða og hraðað útbreiðslu veirunnar til mikilla muna.