Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Næsta mynd verður útópía

Mynd: RÚV / RÚV

Næsta mynd verður útópía

28.07.2018 - 10:10

Höfundar

„Ég lék mér að því að ég bjarga heiminum með þessari mynd,“ segir Benedikt Erlingsson leikstjóri í samtali um nýjasta verk sitt, Kona fer í stríð, sem hefur hlotið tilnefningar og mikið lof á kvikmyndahátíðum víða um heim. Benedikt hefur nú hafist handa við rannsóknarvinnu fyrir næstu mynd.

„Ég er bara miður mín og himinlifandi,“ segir Benedikt aðspurður um tilfinningarnar sem fylgja velgengni síðustu mánaða. „Ég er steinhissa á þessu,“ bætir hann við. „Ég er bara lókal strákur sem vill gera sögur fyrir minn ættbálk, mitt fólk. Er að rembast við það í þessum afskaplega dýra miðli,“ segir hann. Benedikt segir að vegna þess vegna hafi hann þurft að tengja sig við heiminn. „Þetta er auðvitað bara mjög óvænt og falleg aukaafurð, að hún skuli höfða til og vera skilin annars staðar.“ Kona fer í stríð hefur hlotið gríðarlega góðar viðtökur meðal franskra bíógesta en þar hafa yfir 100.000 manns séð myndina í bíó. „Þetta þykir mjög gott,“ segir Benedikt og það er óhætt að segja að myndin hafi slegið í gegn þar í landi.

Benedikt Erlingsson er föstudagsgestur Síðdegisútvarps Rásar 2. Ferill hans er fjölbreyttur og spannar yfir 20 ár, en hann hefur sett mark sitt á íslenskt leikhúslíf um árabil bæði sem leikari og leikstjóri auk þess að hafa komið að fjölda sjónvarpsþátta og kvikmyndatengdra verkefna bæði hér heima og erlendis. Kona fer í stríð er önnur leikna myndin í fullri lengd sem Benedikt leikstýrir en Hross í oss kom út árið 2013.

Búinn að æfa sig alla ævi

Aðspurður játar Benedikt því að hugmyndin hafi, líkt og í tilfelli Hross í oss, kraumað lengi í honum. „Við vorum í viðtölum við Dóra [innsk. blm. Halldóra Geirharðsdóttir, aðalleikona myndarinnar] og hún grípur svolítið mikið fram í fyrir mér í viðtölum, sem er mjög fínt,“ segir Benedikt glettinn. „Og hún segir: Já, já. Þú ert búinn að æfa þig fyrir þessa mynd alla ævi.“ Hann segir að með því sé hún að vísa í líf hans, það sem hún þekki til. „Auðvitað erum við alla ævi að undirbúa okkur fyrir eitthvað,“ útskýrir Benedikt og segir að árið 2015 hafi hann verið kominn með uppkast að Kona fer í stríð og búinn að setja Ólaf Egilsson leikstjóra inn í verkefnið, en hann skrifar handritið ásamt Benedikt. „Þar byrjar skrif-ferlið, fókuserað,“ segir hann. Hann segir að Hross í oss hafi tekið lengri tíma í undirbúning vegna þess að hann var minna þekktur á þeim tíma. „Þá þurfti ég að berjast lengur til að safna í þennan togara.“

Mynd með færslu
 Mynd: stikla/skjáskot - Kona fer í stríð
Skjáskot úr Kona fer í stríð

Bjargar heiminum með þessari mynd

Hann hikar við að tjá sig beint um erindi myndarinnar, segir að hugsanlega vinni hann á móti myndinni með því að tala of mikið um hana eða segja hvað honum finnst og hvað hann er að hugsa. „Svona verk hefur stundum breiðari skírskotun en höfundurinn hefur hugsað. Hún verður til í hugum áhorfenda og segir þeim eitthvað sem ég hafði ekki hugsað til enda,“ segir hann. „Ég lék mér að því að ég bjarga heiminum með þessar mynd. Við Óli köstuðum því á milli: Gerum mynd sem bjargar heiminum,“ segir hann og spyr: „Og hvernig verður nú heiminum bjargað?“

Hann nefnir loftslagsbreytingar í því samhengi og nefnir að siðbreyting þurfi að eiga sér stað. „Það þurfa að eiga sér stað siðaskipti í heiminum,“ segir hann. „Í framfaramiklu hnignunarskeiði og átökum. Þannig að það er ein hugmyndin.“ Hann bætir við að hann sé með allskonar listrænar aðferðir sem hann leyfir sér að fara í og tengjast leikhúsinu. „Þær þykja nýstárlegar [innsk. blm. í kvikmyndagerð] en eru það í rauninni ekki,“ segir hann.

Mikið hefur verið rætt um kynjapólitík í kvikmyndabransanum á síðustu misserum en nokkuð hefur borið á yfirlýstum vilja til að auka veg kvenna í frásögn. Hafdís Helga Helgadóttir, dagskrárgerðarkona spyr Benedikt hvort að aðalsöguhetjan sé skrifuð af handritshöfundunum tveimur eða hvort að Halldóra hafi tekið þátt. „Nei við erum bara tvö karlrembusvín, tveir synir feðraveldisins sem ungum þessu út úr okkur,“ segir Benedikt sposkur. Þá bætir hann við: „Ég er sonur mæðraveldis, ég hef upplifað mæðraveldi allt mitt líf.“ Hann segir að það hafi þó ekki verið meðvituð ákvörðun af hans hálfu að beita pólitískri rétthugsun fyrir sig í þessu verkefni. Benedikt segir þá að hann hafi í seinni tíð talið sig vera femínista og segist vera hrifinn af Bechdel prófinu, sem er þekkt leið til að greina kynjaslagsíðu í kvikmyndum.

Mynd með færslu
 Mynd: Kona fer í stríð/Facebook - Facebook
Halldóra Geirharðsdóttir með verðlaunagripinn Gullna lestarteininn sem myndin hlaut í Cannes

Íslenskar konur sem brautryðjendur

Hann segir að ef hann stilli saman viljanum til að bjarga heiminum og viljanum til að ættleiða barn og móðureðlinu þá sé konan mjög nálægt. Hann segir að því komi kyn aðalpersónunnar upp úr dramanu. „Í íslensku samhengi hafa konur oftast verið brautryðjendur, mjög oft.“ Hann nefnir til sögunnar Sigríði Tómasdóttur í Brattholti, Herdísi Þorvarðsdóttur og Heiðu heiðarbónda. „Þó að karlar séu mjög öflugir hafa konur allta verið þeim jafnstæðar í allri þessari baráttu og í baráttu þessarar litlu þjóðar fyrir almannahagsmunum.“ Framundan og á síðkastið hefur mikil vinna farið í að kynna myndina. „Það er svona success vandamál hversu mikið ég neyðist til að elta myndina. Þetta er mikil carousel og mikil krafa og það eru hinar og þessar tilnefningar.“ Hann lýsir því sem seinni hálfleik ferðalagsins og það muni kosta hann einhverja orku.

Baráttan við alla Trumpa heimsins

Hann  segist vera að leggja drög að nýrri mynd. „Ég er að fara ofan í hellinn með það og er að lesa mér mikið til um siðaskiptin,“ segir hann. „Hugsa mikið um Guðmund góða og allar þessar félagslegu byltingar á miðöldum.“ Hann nefnir að ástæðan sé ekki sú að hann langi til að gera mynd um þá atburði, en hann stefnir á að gera framtíðarmynd og segir að hún eigi að vera útópísk frekar en dystópísk. „Dystópía er svona myrk sýn á framtíðinni, svona daginn eftir þegar allt hefur farið til helvítis. En útópía er mynd um hina björtu framtíð þar sem hlutirnir eru á góðri og betri leið og öllu miðar til hins betra.“

„Ef maður ætlar að ímynda sér að við komum út úr þessari glímu okkar við lífsstíl og vandamál og baráttu við alla Trumpa heimsins, þá þurfa að eiga sér stað siðaskipti,“ segir hann. „Þess vegna er ég að skoða fortíðina. Eina leiðin til að spá í framtíðina er að skoða fortíðina.“

Tengdar fréttir

Menningarefni

Stella fékk 112 milljónir úr ríkissjóði

Leiklist

Ósýnilega leikkonan í Kona fer í stríð

Kvikmyndir

Kórstjóri umbreytist í ofurhetju öræfanna

Leiklist

„Benni! Ætlarðu að drepa mig?“