„Ég er bara miður mín og himinlifandi,“ segir Benedikt aðspurður um tilfinningarnar sem fylgja velgengni síðustu mánaða. „Ég er steinhissa á þessu,“ bætir hann við. „Ég er bara lókal strákur sem vill gera sögur fyrir minn ættbálk, mitt fólk. Er að rembast við það í þessum afskaplega dýra miðli,“ segir hann. Benedikt segir að vegna þess vegna hafi hann þurft að tengja sig við heiminn. „Þetta er auðvitað bara mjög óvænt og falleg aukaafurð, að hún skuli höfða til og vera skilin annars staðar.“ Kona fer í stríð hefur hlotið gríðarlega góðar viðtökur meðal franskra bíógesta en þar hafa yfir 100.000 manns séð myndina í bíó. „Þetta þykir mjög gott,“ segir Benedikt og það er óhætt að segja að myndin hafi slegið í gegn þar í landi.
Benedikt Erlingsson er föstudagsgestur Síðdegisútvarps Rásar 2. Ferill hans er fjölbreyttur og spannar yfir 20 ár, en hann hefur sett mark sitt á íslenskt leikhúslíf um árabil bæði sem leikari og leikstjóri auk þess að hafa komið að fjölda sjónvarpsþátta og kvikmyndatengdra verkefna bæði hér heima og erlendis. Kona fer í stríð er önnur leikna myndin í fullri lengd sem Benedikt leikstýrir en Hross í oss kom út árið 2013.
Búinn að æfa sig alla ævi
Aðspurður játar Benedikt því að hugmyndin hafi, líkt og í tilfelli Hross í oss, kraumað lengi í honum. „Við vorum í viðtölum við Dóra [innsk. blm. Halldóra Geirharðsdóttir, aðalleikona myndarinnar] og hún grípur svolítið mikið fram í fyrir mér í viðtölum, sem er mjög fínt,“ segir Benedikt glettinn. „Og hún segir: Já, já. Þú ert búinn að æfa þig fyrir þessa mynd alla ævi.“ Hann segir að með því sé hún að vísa í líf hans, það sem hún þekki til. „Auðvitað erum við alla ævi að undirbúa okkur fyrir eitthvað,“ útskýrir Benedikt og segir að árið 2015 hafi hann verið kominn með uppkast að Kona fer í stríð og búinn að setja Ólaf Egilsson leikstjóra inn í verkefnið, en hann skrifar handritið ásamt Benedikt. „Þar byrjar skrif-ferlið, fókuserað,“ segir hann. Hann segir að Hross í oss hafi tekið lengri tíma í undirbúning vegna þess að hann var minna þekktur á þeim tíma. „Þá þurfti ég að berjast lengur til að safna í þennan togara.“