Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Næst æðsti yfirmaður Oxfam hættir

12.02.2018 - 17:45
Erlent · Bretland · Haítí · Evrópa
epa05578424 A handout picture provided on 09 October 2016 by Oxfam International shows members of a emergencies team of Oxfam delivering hygiene kits to prevent the spread of Cholera and other diseases in the town of Camp Perrin, department Sud, Haiti,
Oxfam-liðar að störfum á Haíti. Mynd: EPA - EFE/Oxfam International
Evrópusambandið krefst þess að Oxfam, alþjóðlegt samband 13 hjálparstofnana í 100 löndum, gefi skýringar á kynlífhneyksli sem yfirmenn sambandsins stóðu að á Haítí árið 2011. Næst æðsti yfirmaður Oxfam í Bretlandi hefur sagt af sér vegna málsins.

Lundúnablaðið Times greinir frá því að háttsettir starfsmenn Oxfam hafi leigt ungar vændiskonur þegar samtökin unnu að hjálparstarfi á Haítí eftir jarðskjálftann 2010. Hann olli gríðarlegum hörmungum. Á annað hundrað þúsund manns létu lífið og mörg hundruð þúsund íbúðarhús stórskemmdust eða eyðilögðust.

Evópusambandið, helsta fjárhagslega stoð Oxfam, sem lagði samtökunum til yfir 25 milljónir evra i fyrra, krafði í dag yfirmenn hjálparstarfsins um skýringar. Þá krefjast bresk stjórnvöld þess að  starfsmennirnir standi fyrir máli sínu. Evrópusambandið lagði 1,7 milljónir evra til hjálparstarfs Oxfam á Haítí árið 2011.

Síðdegis sendi Penny Lawrence, næst æðsti yfirmaður Oxfam í Bretlandi frá sér yfirlýsingu, þar sem hún kveðst axla ábyrgð vegna málsins og hafi því ákveðið að láta af störfum. Lawrence stjórnaði hjálparstarfinu á Haítí á sínum tíma. Hún kveðst í yfirlýsingunni skammast sín fyrir að annað eins hneykslismál skuli hafa komið upp meðan hún var við stjórnvölinn.

Á fréttavef Telegraph segir að afsögn Penny Lawrence auki þrýsting á Mark Goldring, forstjóra Oxfam, að láta einnig af störfum.

 

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV
asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV