Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Nærri 400.000 heiðagæsir

20.08.2015 - 11:44
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Heiðagæsastofninn heldur áfram að stækka og nálgast nú fjögur hundruð þúsund fugla. Gæsirnar verpa nær byggð en áður, til að mynda við Héraðsvötn í Skagafirði og í Glerárdal við Akureyri. Gæsaveiðitímabilið hófst á miðnætti.

Heimilt að veiða grágæsir og heiðagæsir til 15. mars. Á þessu er þó ein undantekning. Veiðar eru ekki heimilar á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs fyrr en 1. september. Á vef um Umhverfisstofnunar eru veiðimenn sérstaklega minntir á að óheimilt er að skjóta ófleyga fugla. Þá eru þeir minntir á að blesgæs er alfriðuð og að veiðar á helsingja í Austur- og Vestur-Skaftafellssýslum hefjast ekki fyrr en 25. september.

Arnór Sigfússon fuglafræðingur segir að ástand heiða- og grágæsastofnanna sé nokkuð gott. „Það er talið alltaf á haustin á Bretlandseyjum, þannig að við erum talningu frá síðasta hausti og heiðagæsin er ennþá á mikilli uppleið og var 393.000 2014, þannig að það er alveg nýtt met. Grágæsin var svona 90.000 fuglar sem er mjög gott líka,“ segir Arnór. 

Heiðagæsin verpir á nýjum stöðum
Vegna fjölgunar hefur heiðagæsin dreift úr sér og sést á stöðum þar sem hún var lítt þekkt áður. „Hún er farin að sækja talsvert t.d. niður á láglendi fyrir norðan sérstaklega. Menn eru farnir að sjá hana þar í auknum mæli og jafnvel á nýjum stöðum líka. Á norður- og norðausturlandi er hún farin að sækja talsvert niður á láglendi. Í Skagafirði er t.d. orðið mjög mikið varp í Héraðsvötnum þarna við þjóðveg 1,“ segir Arnór. 

Þá séu gæsir farnar að verpa í Glerárdal rétt ofan við Akureyri. Arnór hefur einnig fylgst með helsingjastofninum. Nokkuð er skotið af honum þegar hann kemur hingað frá Grænlandi. „Sá stofn er í sókn einnig. Hann var talinn 2013 og var þá kominn í 80.000 fugla. Honum er að fjölga og á Íslandi líka. Hann verpir í Austur- og Vestur-Skaftafellssýslum og þar virðist hafa orið töluvert mikil fjölgun síðan varpið uppgötvaðist. Þetta eru örugglega 600-700 pör sem eru farin að verpa, sem þýðir að þannig að þetta eru nokkur þúsund fuglar ef þú leggur saman varpfugla, unga og geldfugla sem þeim fylgja,“ segir Arnór. 

Frétt Umhverfisstofnunar um gæsaveiði.