Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Nærri 200 framboðslistar bárust í tæka tíð

06.05.2018 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Rétt tæplega 200 framboðslistar bárust kjörstjórnum um land allt áður en framboðsfrestur rann út í gær. Í lang flestum af sveitarfélögunum 72 verður kosið milli tveggja eða fleiri lista.

 

Flestir listar verða í framboði í Reykjavík, sextán, níu í Kópavogi og átta í Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Reykjanesbæ.

Í fimmtán sveitarfélögum bárust engir listar og  þar verða  því óhlutbundnar kosningar eða persónukjör.

Í fjórum sveitarfélögum barst aðeins einn framboðslisti. Það eru Eyja- og Miklaholtshreppur, Súðavíkurhreppur, Skútustaðahreppur og Tjörneshreppur. Í þeim tilfellum er framboðsfrestur framlengdur um tvo sólarhringa og berist ekki fleiri framboð er listinn sjálfkjörinn.

Kjörstjórnir í hverju sveitarfélagi þurfa að úrskurða hvort listarnir eru gildir eða ekki, í mörgum tilfellum verður það gert síðar í dag.

Engir listar bárust í: Kjósarhreppi, Skorradalshreppi, Helgafellssveit, Dalabyggð, Reykhólahreppi, Árneshreppi, Kaldrananeshreppi, Strandabyggð, Skagabyggð, Akrahreppi, Svalbarðsstrandarhreppi, Grýtubakkahreppi, Svalbarðshreppi, Fljótsdalshreppi og Borgarfjarðarhreppi.
 

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV