Nærri 1600 tjá sig um breytingar á klukku

11.03.2019 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd: Ingólfur Bjarni Sigfússon - RÚV
Fjörutíu og sex skiluðu í gær inn umsögn um greinargerð forsætisráðuneytisins um Staðartíma á Íslandi - stöðumat og tillögur. Gáttinni var lokað á miðnætti. Hún hefur verið opin frá því 10. janúar og hafa næstum sextán hundruð lýst skoðun sinni á hugmyndum um breytingar á klukkunni og er afstaða umsegjanda til þriggja kosta sem bornir eru upp ólík.

Spurt var hvort fólk vildi kost A: halda klukkunni en hvetja fólk til að fara fyrr í háttinn, kost B: seinka um eina klukkustund frá því sem nú er í samræmi við hnattstöðu eða kost C: sem svipar mjög til A., það er klukkan óbreytt en skólar og jafnvel fyrirtæki og stofnanir opni seinna.

Pálmey Elín Sigtryggsdóttir, sú sem fyrst tjáði sig 10. janúar vildi láta klukkunni í friði; hver og einn ráði sínum tíma sjálfur. Síðastur skrifar Eysteinn Pétursson og honum hugnast heldur ekki að klukkunni verði breytt; telur að margir myndu sakna síðdegis og kvöldbirtu. En þar á milli er að finna margar og misítarlegar umsagnir.

Nú tekur við úrvinnsla umsagna en niðurstöður samráðsins verða birtar þegar þeirri vinnu lýkur. 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi