Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Nær uppselt á lokaúrslit Söngvakeppninnar

21.01.2016 - 09:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Þetta byrjar virkilega vel, mun betur en í fyrra. Nú er nánast uppselt á úrslitakvöldið í Laugardalshöll og miðar seljast einnig hratt á báðar undankeppnirnar í Háskólabíói og á lokaæfinguna í Laugardalshöll,“ segir Hera Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Söngvakeppninnar. Miðasala hófst á þriðjudaginn.

Söngvakeppnin hefst 6. febrúar með fyrri undankeppninni í Háskólabíói. Hera segir að hún verði með glæsilegu sniði í tilefni af því að 30 ár eru frá því að Íslendingar tóku fyrst þátt í Eurovision.  „Við blásum til mikillar veislu á öllum viðburðunum þremur. Auðvitað verða lögin í keppninni í fyrirrúmi en að auki verða mörg önnur skemmtiatriði til að gleðja áhorfendur.“

Glæsileg skemmtiatriði

Belgíska söngkonan Sandra Kim, sigurvegari Eurovision 1986, og hin sænska Loreen sem sigraði 2012 koma fram í Höllinni. Í Háskólabíói skemmta m.a. Pollapönk, Sturla Atlas, Unnsteinn Manuel, Logi Pedró, Högni Egilsson og Páll Óskar Hjálmtýsson. 

Kynnar keppninnar eru Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Guðrún Dís Emilsdóttir.

Loreen og Sandra Kim verða líka á lokaæfingu

Lokaæfingin fer fram í Laugardalshöll laugardaginn 20. febrúar kl. 15.15. Öll umgjörðin og fyrirkomulag á flutningi verður með sama hætti og í úrslitakeppninni um kvöldið. Loreen og Sandra Kim koma að sjálfsögðu fram á lokaæfingunni líka.  Með því að hafa lokaæfinguna opna er ekki síst verið að gefa yngstu kynslóðinni tækifæri til að koma í Laugardalshöll og fylgjast með Söngvakeppninni.

Dagskráin er sem hér segir

Laugardagur 6. febrúar 2016 í Háskólabíói – fyrri undankeppni.
Sex lög keppa. Páll Óskar og Sturla Atlas, Logi Pedro og Unnsteinn Manuel (101 boys) koma fram.

Laugardagur 13. febrúar 2016 í Háskólabíói – seinni undankeppni.
Sex lög keppa. Högni Egilsson og Pollapönk koma fram.

Laugardagur 20. febrúar 2016 í Laugardalshöll – lokaæfing.
Lögin sex sem keppa til úrslita.  Loreen og Sandra Kim koma fram.

Laugardagur 20. febrúar 2016 í Laugardalshöll – úrslit.
Lögin sex sem keppa til úrslita. Loreen og Sandra Kim koma fram.

Á vef Söngvakeppninnar www.ruv.is/songvakeppnin er hægt að hlusta á öll lögin, kynna sér keppendur og flytjendur og margt fleira. Miðasalan er á tix.is

felix's picture
Felix Bergsson
dagskrárgerðarmaður