
Nær sjötug rafmagnslína tekin niður
Gamla rafmagnslínan var orðin ein sú elsta í raforkukerfinu, sett upp árið 1948, eða fyrir 67 árum. Unnur Helga Kristjánsdóttir verkefnisstjóri segir að gamla línan hafi reynst vel, en nú hafi verið komin þörf á að endurnýja hana. „Í sumar var lagður nýr 66 kílóvolta jarðstrengur á milli Hellu og Hvolsvallar, um 13 kílómetra. Núna er í gangi lokahnykkurinn á þessu verkefni, að taka niður gömlu loftlínuna“.
Nýi jarðstrengurinn á að auka flutningsgetu og öryggi. Hans vegna sjást brátt hvorki loftlína, né staurar eða stauravirki gömlu línunnar. Brotthvarf gömlu línunnar breytir ásýnd þorpsins á Hellu. Línan hefur hangið í hálfa öld frá tengivirki vestan Ytri Rangár, yfir ána og þjóðveginn við brúna þar sem komið er inn í þorpið, og svo austur með þjóðveginum til Hvolsvallar. Nú eru horfnir þrir tvöfaldir staurar sem gnæfðu yfir verslunum báðum megin þjóðvegar í þorpinu. Sömuleiðis eru farnir rafmagnsstaurar beint fyrir framan innganginn á Hótel Stracta. Hótelið tók til starfa í fyrra sunnan við þjóðveginn. Það hefur að sögn Hreiðars Hermannssonar hótelstjóra mest gistirými hótela á Suðurlandi. „Þetta er mikil breyting fyrir okkur og jákvæð. Línan er tekin niður á þeim tíma sem okkur var tjáð í aðdraganda byggingar hótelsins“. Starfsmenn Landsnets vefja nú upp gömlu línuna og taka niður staura næstu daga, alla leið á Hvolsvöll.