Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Nær helmingur húsa hrundi

16.01.2010 - 18:01
Sameinuðu þjóðirnar segja skjálftann á Haítí verstu náttúruhamfarir sem samtökin hafi nokkru sinni þurft að bregðast við. Stjórnandi íslensku björgunarsveitarinnar segir að átta af hverjum tíu húsum hafi hrunið í þorpum nærri upptökum skjálftans en nær helmingur í höfuðborginni og nærliggjandi bæjum.

Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin hefur í dag leitað í rústum hótels í Port-au-Prince á Haítí með spænskri björgunarsveit. Þar hafa þær verið undir vernd indverskra friðargæsluliða.

Gísli Rafn Ólafsson, stjórnandi íslensku sveitarinnar, segir að þrjátíu hafi fundist á lífi í gær en færri í dag. Síðdegis bárust síðan fréttir af því að björgunarmenn hefðu fundið telpu og dreng föst í rústum verslunarmiðstöðvar í höfuðborginni. Ekki er vitað hvort tókst að bjarga þeim. Gísli segir eyðilegginguna á Haítí mikla, ekki síst fyrir utan höfuðborgina.

Gísli segir tjónið gríðarlegt í byggðarlögum næst upptökum stóra skjálftans á dögunum. Íslenska sveitin hefur staðið í ströngu í dag eins og undanfarna daga og var við leit að fólki í höfuðborginni Port au Prince. Að skipulag björgunarstarfs sé orðið nokkuð gott, en Sameinuðu þjóðirnar samræmi aðgerðir úr einu af tjöldum íslensku sveitarinnar. Komnir séu um 1500 björgunarmenn með um 120 leitarhunda. Flestar björgunarsveitanna hafi sett upp búðir við hlið íslensku búðanna.

Fregnir hafa borist af því að nokkuð stór eftirskjálfti hafi orðið á Haítí og hann sagður hafa truflað vinnu björgunarmanna á svæðinu. Staðfest hefur verið að allir úr íslenska hópnum væru heilir á húfi.

Alþjóða Rauði krossinn hefur aukið neyðarbeiðni sína um tæpa hundrað milljónir bandaríkjadala eða sem nemur 12,5 milljörðum íslenskra króna svo aðstoða megi 300 þúsund íbúa á Haítí í næstu þrjú ár. Fyrri neyðarbeiðnin hljóðaði upp á tíu milljónir dala.

Þótt hjálpargögn séu farin að berast til Haiti í stórum stíl gengur erfiðlega að koma þeim til nauðstaddra. Borið hefur á ránum og gripdeildum á sumum svæðum og er vaxandi örvænting meðal íbúa.

Þorri íbúa á hamfarasvæðunum hefur hvorki fengið mat né drykkkjarvatn að ráði síðan jarðskjálftinn reið yfir og reynir í örvæntingu sinni að verða sér úti um brýnustu nauðsynjar. Mörgum finnst hjálpin berast seint.

Eyðileggingin er gríðarleg og erfiðlega gengur að komast um höfuðborgina. Enn má sjá lík á víðavangi en yfirvöld segja að kapp verði lagt á að fjarlægja þau. Margir hafa þegar verið grafnir í fjöldagröfum.

Rene Preval, forseti Haiti flaug yfir hamfarasvæðin í þyrlu í dag og kynnti sér ástandið. Hann segir að fyrir utan leit, björgunar- og hjálparstarf sé það forgangsmál að koma stjórnsýslunni í lag. Þrátt fyrir ákafa leit fara vonir um að finna fleiri á lífi dvínandii með hverri klukkustund.

  Sjá má ummæli forsetans í frétt sjónvarpsins um málið.