Sjö ár eru ríflegur tími en það er ekki svo að Helgi hafi setið með hendur í skauti (og sex laga stuttskífa, Vængjatak, kom út 2016). Tónleikahaldi hefur hann sinnt reglubundið, m.a. með konu sinni, dönsku söngkonunni Tinu Dickow og hann hefur komið að gerð fjölda platna. T.a.m hafa þau hjónin verið að semja kvikmyndatónlist, og hafa þau í tvígang fengið dönsku kvikmyndaverðlaunin fyrir bestu tónlistina.
Tilurð þessarar plötu liggur í efni sem skrifað var fyrir þýska leikritaskáldið og leikstjórann Falk Richter, en hinn fjölhama Helgi hefur unnið með Richter að þremur leikverkum. Intelligentle (skemmtilegur orðaleikur) er sólóplata í fyllstu merkingu þess orð, fyrri plötur hefur hann einatt unnið með hópi tónlistarmanna en í þetta sinnið reyndi hann að gera sem allra mest sjálfur. Tina leggur svo gjörva hönd á plóg, varðandi textagerð. Þorvaldur Þorvaldsson sló trommur, aukalega, í einu lagi og strengir í „Lyfta“ eru á vegum Unu Sveinbjarnardóttur, Þórunnar Óskar Marinósdóttur og Sigurðar Bjarka Gunnarssonar. Helgi tók allt upp sjálfur og hljóðjafnaði í hljóðverinu Big Spring sem hann og Tina reka á Seltjarnarnesi. Styrmir Hauksson gerði svo aukreitis hljóðjöfnun á „Other Than You“.