Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Næmt og glúrið

Mynd með færslu
 Mynd:

Næmt og glúrið

07.04.2019 - 10:11

Höfundar

Intelligentle er sólóbreiðskífa eftir Helga Jónsson, en heil sjö ár eru síðan hann gaf út slíka. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið, sem var plata vikunnar á Rás 2.

Sjö ár eru ríflegur tími en það er ekki svo að Helgi hafi setið með hendur í skauti (og sex laga stuttskífa, Vængjatak, kom út 2016). Tónleikahaldi hefur hann sinnt reglubundið, m.a. með konu sinni, dönsku söngkonunni Tinu Dickow og hann hefur komið að gerð fjölda platna. T.a.m hafa þau hjónin verið að semja kvikmyndatónlist, og hafa þau í tvígang fengið dönsku kvikmyndaverðlaunin fyrir bestu tónlistina.

Tilurð þessarar plötu liggur í efni sem skrifað var fyrir þýska leikritaskáldið og leikstjórann Falk Richter, en hinn fjölhama Helgi hefur unnið með Richter að þremur leikverkum. Intelligentle (skemmtilegur orðaleikur) er sólóplata í fyllstu merkingu þess orð, fyrri plötur hefur hann einatt unnið með hópi tónlistarmanna en í þetta sinnið reyndi hann að gera sem allra mest sjálfur. Tina leggur svo gjörva hönd á plóg, varðandi textagerð. Þorvaldur Þorvaldsson sló trommur, aukalega, í einu lagi og strengir í „Lyfta“ eru á vegum Unu Sveinbjarnardóttur, Þórunnar Óskar Marinósdóttur og Sigurðar Bjarka Gunnarssonar. Helgi tók allt upp sjálfur og hljóðjafnaði í hljóðverinu Big Spring sem hann og Tina reka á Seltjarnarnesi. Styrmir Hauksson gerði svo aukreitis hljóðjöfnun á „Other Than You“. 

EIns og sjá má leika önnur hljóðfæri í höndum Helga og er það afrek út af fyrir sig, þar sem sum lögin eru giska hlaðin af alls kyn hljómum og blæbrigðum. Og maður finnur vel að þetta er einyrkja-plata, Helgi einn í heiminum, því að þannig er framvindan. Ekki bara hvernig röddin er jafnan í forvígi, nálægt manni, heldur er stemningin innileg og næsta svefnherbergisleg á köflum, þó að ekkert skorti á vandaðar útsetningar og kristaltæra – og vel heppnaða – upptökuna.

Tónlistin er einlæg, blíð eiginlega, varfærin og nærgætin. Falleg, dansandi á mörkum raftónlistar og einslags þjóðlagatónlistar (sjá „Run Wild“ t.d.). Sigur Rós og Jónsi koma óneitanlega upp í hugann annað slagið, bæði vegna falsettunnar og tónheimsins (og Helgi hefur einnig unnið með sveitinni). Lögin eru nokkuð mismunandi að gerð, þó að öll falli þau innan þess ramma sem ég var að lýsa. Sum hörð og hávaðasöm – þannig séð – önnur líða um á viðkvæmnislegri vegu. Textar eru ýmist á ensku eða íslensku en stundum heyrir maður varla hvað er verið að segja, Helgi nýtir þá röddina meira eins og hljóðfæri. Hann leyfir sér að sleppa sér lausum líka mætti segja, og gerist ofurvæminn í eitt skiptið („Brúðkaupslag“).

Þannig á Helgi það stundum til að detta í einslags tilgerð, það verður að viðurkennast, en oftast nær hann þó að halda sér réttu megin við strikið í þeim efnum. Þægileg plata og metnaðarfull, um leið og pundið í henni er þungt. Sannferðugt verk, þegar allt er til tekið, og ég efast ekki í eina sekúndu um að Helgi er að leggja hjarta og sál í þetta sköpunarverk sitt. Það heyrist.