Náðu þjófi vegna skófara á vettvangi

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson/R
Lögreglan á Suðurnesjum handsamaði þjóf á leið úr landi með því að kanna skóbúnað hans og bera saman við skóför sem fundust á vettvangi.

Brotist var inn á heimili tveggja erlendra verkamanna og ýmsu stolið, svo sem tölvum og tækjum. Á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að tjónið hafi verið tilfinningalegt fyrir fólkið, eins og iðulega sé með innbrot og þjófnað. 

Í ljós kom að samstarfsmaður húsráðenda var rekinn úr vinnu fyrr þann sama dag og væri líklegast á leið úr landi þá um kvöldið. Í kjölfarið hafði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu samband við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og óskaði eftir því að viðkomandi yrði stöðvaður á leið úr landi og skóbúnaður hans kannaður en rannsóknarlögreglumaður hafði komið auga á skóför við rannsókn málsins.

Maðurinn var handsamaður í Leifsstöð og við frekari athugun reyndust skór hans passa við fótsporið sem rannsóknarlögreglumaður fann á vettvangi. Allt þýfið fannst í farangri mannsins. Rannsókn er á lokastigi.

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi