Náðanir framvegis á fjölmiðladagskrá

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Tillaga um að veita einstaklingi skilorðsbundna náðun rataði í fyrsta sinn á fjölmiðladagskrá ríkisstjórnarinnar í gær. Dómsmálaráðherra segir að það auki gagnsæi og að náðanir sem ræddar eru á ríkisstjórnarfundum verði framvegis á fjölmiðladagskrá. Umræðan um uppreist æru hafi leitt til vangaveltna um fyrirkomulag við veitingu náðana.

Sigríður Á Andersen dómsmálaráðherra kynnti tillögu til forseta Íslands um að veita einstaklingi náðun á ríkisstjórnarfundi í gær, í samráði við álit náðunarnefndar. Hún segir að það var í fyrsta sinn sem lagt er fram minnisblað um náðun til allra ráðherra en áður hafa málin verið kynnt af hálfu forsætisráðherra. Eins sé það nýlunda að málið komi fram á fjölmiðladagskrá ríkisstjórnarinnar en sá háttur, segir Sigríður, verði framvegis hafður á þegar náðanir rata á borð ríkisstjórnarinnar.

Birta upplýsingar um fjölda umsókna

„Það sem er kannski nýtt er að þetta kemur fram á fjölmiðladagskrá að þessi mál hafi verið rædd,“ segir Sigríður. Hins vegar verði ekki veittar upplýsingar um hvaða einstakling sé verið að ræða hverju sinni. „Þetta er ekki sett á fjölmiðladagskrá til að ræða einstakt mál, þetta er miklu frekar til þess að það sé meira upplýsandi fyrir fjölmiðla, og almenning þar með, hvað það er sem verið er að ræða á ríkisstjórarfundum.“

Þannig aukist gagnsæi um mál er varða náðun. Í vef dómsmálaráðuneytisins verði líka birtar upplýsingar um fjölda og afdrif umsókna um náðun. Það hafi verið gert í desember í fyrsta sinn. „Við uppfærum þann lista árlega vænti ég,“ segir Sigríður.

Framhald af umræðunni um uppreist æru

Hún segir að breytt fyrirkomulag í meðhöndlun náðana sé framhald af umræðunni um uppreist æru. Í fyrra var felld niður heimild til að veita uppreist æru og Sigríður segir að hún leggi fram frumvarp í haust til að mæta þeim breytingum.

„Umræðan sem átti sér stað í tengslum við umræðu um uppreist æru fyrir ári síðan leiddi óhjákvæmilega líka til vangaveltna um fyrirkomulag við veitingu náðana,“ segir Sigríður. „Í því ljósi hefur verið breytt um framkvæmd eða háttalag á ríkisstjórnarfundum hvað það varðar. Í framhaldi af því taldi ég rétt að það væri sett á fjölmiðladagskrá.“

 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi