Náð „ákveðnum tökum“ á ástandinu í Húnaþingi vestra

24.03.2020 - 23:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Óðinn Svan Óðinsson
Tvö ný staðfest tilfelli COVID-19 kórónuveirunnar greindust í Húnaþingi vestra í dag. Af nítján sýnum sem komu úr greiningu reyndust sextán neikvæð, tvö jákvæð en eitt ónýtt að því er segir í tilkynningu á vef sveitarfélagsins. Alls eru nú sextán staðfest smit í sveitarfélaginu og von er á niðurstöðum úr tíu sýnum á morgun.

290 einstaklingar eru nú skráðir í sóttkví í Húnaþingi vestra, eða um 24% íbúa. Gripið var til hertra sóttvarnaraðgerða á laugardag á meðan unnið er að smitrakningu. Aðeins einn má yfirgefa heimilið til að afla aðfanga og jafnhliða gildir almennt samkomubann.

Á vef sveitarfélagsins í kvöld segir einnig að starfsmenn eigi mikið hrós skilið fyrir að aðlaga starfsemi nýjum aðstæðum. „Eftir daginn í dag er hægt að segja að við séum ekki lengur að slökkva elda, en höfum náð ákveðnum tökum á ástandinu,“ segir í tilkynningunni.