Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ná sátt um breytingar á Fríkirkjuvegi 11

Mynd með færslu
 Mynd:

Ná sátt um breytingar á Fríkirkjuvegi 11

01.10.2014 - 14:50
Minjastofnun Íslands hefur ákveðið hvaða innréttingar Fríkirkjuvegs 11 skulu friðaðar. Björgólfur Thor Björgólfsson, eigandi hússins, gerir ekki athugasemdir við ákvörðun Minjastofnunar en Húsafriðunarnefnd harmar að ekki skuli hafa náðst sátt um „stigamálið“

Björgólfur Thor keypti Fríkirkjuveg 11 af Reykjavíkurborg fyrir sex árum á 600 milljónir. Thor Jensen, athafnamaður og langafi Björgólfs, reisti húsið á sínum tíma. 

Björgólfur hugðist gera talsverðar breytingar á innréttingum hússins, ætlaði meðal annars að hafa þar tvö notkunarrými - íbúð og svo veislusal. Húsafriðunarnefnd, forveri Minjastofnunar, hefur alla tíð staðið gegn þessum áætlunum Björgólfs og talið að þær myndu rýra gildi hússins mjög. 

Allar áætlanir Björgólfs komust síðan í mikið uppnám þegar þáverandi mennta - og menningamálaráðherra ákvað að friða innra byrði hússins fyrir tveimur árum. Björgólfur taldi að á þessari ákvörðun væru alvarlegir efnismarkar og kvartaði til Umboðsmanns Alþingis sem fól Minjastofnun Íslands, sem þá hafði tekið við hlutverki Húsafriðunarnefndar, að taka málið upp að nýju.

Húsafriðunarnefnd, sem nú gefur Minjastofnun Íslands ráðgefandi álit, og Minjastofnun hafa ekki verið á einu máli um hvað Björgólfur megi gera innanhúss á Fríkirkjuvegi. Húsafriðunarnefnd hefur til að mynda lagst gegn því að kaupsýslumaðurinn fái að fjarlægja frægan aðalstiga hússins sem þykir eitt best varðveitta og fallegasta stigarými landsins.

Minjastofnun féllst hins vegar á þessa hugmynd Björgólfs gegn því skilyrði að hægt yrði koma honum fyrir á sama stað og það á kostnað á Björgólfs - fyrir þessu samkomulag liggur fyrir þinglýst kvöð.

Og nú hefur Minjastofnun ákveðið hvaða hlutar innréttinga Fríkirkjuvegs 11 skuli friðaðir. Þetta er meðal annars gólf, veggjaklæðning og loft í anddyri 1. hæðar og salernisklefi á neðri hæð bakstigahúss og bakstigi.

Húsafriðunarnefnd kveðst vera meðmælt þessari tillögu Minjastofnunar en tekur fram í bókun sinni að hún harmi að ekki hafi fundist ásættanleg lausn á að allar breytingar á aflokun 1. og 2. hæðar hússins sem feli í sér minna rask.

Húsafriðunarnefnd leggur ríka áherslu á að allar breytingar á aðalstiga hússins verði „fullkomlega afturkræfar og að hönnun þeirra og framkvæmd verði unnin í nánu samráði við Minjastofnun.“

[email protected]