Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mývetningar bjartsýnir fyrir vetrarveiðina

22.02.2019 - 17:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Á meðan bleikjustofninn í Mývatni er smám saman að styrkjast takast á þau sjónarmið hvort leyfa eigi aukna veiði eða takmarka hana áfram. Formaður Veiðifélags Mývatns óttast ekki ofveiði þótt leyft verði að veiða meira. Enginn lifi lengur á veiðum úr Mývatni.

Netaveiði hefst í Mývatni um mánaðarmótin en heimilt er að stunda þar vetrarveiði á bleikju í einn mánuð. Eftir hrun í bleikjustofni Mývats fyrir nokkrum árum var ráðist í aðgerðir, veiðin takmörkuð og veiðitíminn styttur verulega. Þetta hefur borið þann árangur að stofninn er smám saman að styrkjast og veiðin í vatninu hefur aukist á ný.

Segist skynja jákvæða þróun í vatninu

Helgi Héðinsson, formaður Veiðifélags Mývatns, segist halda bjartsýnn til veiða að þessu sinni. „Við skynjum frekar jákvæða þróun sem byggir sjálfsagt að miklu leyti á því að vatnið virðist standa undir þeim stofni sem er í því núna. Og maður skyldi ætla að hrygningastofninn sé að stækka í ljósi þess að við erum semsagt að veiða áberandi meira í fyrra heldur en við gerðum árið á undan og svo koll af kolli."

Ekki samstaða um hvort leyfa eigi aukna veiði

Og Helgi segir að svo virðist sem Mývatn þoli þá takmörkuðu veiði sem stunduð hafi verið síðustu ár. En svo þurfi að meta hve mikið sé skynsamlegt að veiða eða hvort yfir höfuð eigi að leyfa aukna veiði. Þar takist á ólík sjónarmið. Einhverja dreymi um að sjá Mývatn aftur nánast kraumandi af bleikju en óvíst sé hvort það sé raunhæft markmið, eða hvort betra sé að gera þetta í smærri skrefum, nýta vatnið og en fylgjast jafnframt vel með þróuninni. 

Enginn lifi lengur á veiðum úr Mývatni

„Svo hafa aðstæður í samfélaginu bara breyst mikið. Núna byggir ekki nokkur einasti maður lífsviðurværi sitt á nýtingu á vatninu,“ segir Helgi. „Þannig jafnvel þó að það verði slakað talsvert á þessum hömlum á veiðinni, þá hef ég enga trú á að sóknin í vatninu verði nokkuð í líkingu við það sem menn þekktu á árum áður."     

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV