2014. Umhverfisstofnun tekur af allan vafa um hvers sé krafist af Skútustaðahreppi. Hreinsa þurfi bæði köfnunarefni og fosfór. Stofnunin sendi Skútustaðahreppi minnisblað þar sem kröfum um frárennslismál sem finna má í reglugerð um verndun Mývatns og Laxár frá árinu 2012 er lýst og sveitarfélagið minnt á ábyrgð sína á því að fráveitumál séu í réttum farvegi. Fram kemur að mikilvægt sé að ráðast strax í aðgerðir til að tryggja að einstök hús í dreifbýli uppfylli kröfur um svokallaða tveggja þrepa hreinsun skólps og koma þannig í veg fyrir mengun í Mývatni af völdum næringarefna og annarra mengunarefna sem leiðst geti út í skólpvatn. Þá kom fram að nauðsynlegt væri að sveitarfélagið setti fram tímasetta aðgerðaáætlun um að koma á ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa frá þéttbýli og atvinnustarfsemi, eins og reglugerðin kveður á um. Loks er vakin athygli á því að Mývatn hafi verið á rauðum lista frá árinu 2012. Sveitarfélagið hóf í kjölfarið vinnu við útfærslu og kostnaðarmat. Leitaði til verkfræðistofunnar Eflu. Yngvi Ragnar, oddviti, segir að fram að því hafi verið talað um að útfærsla ítarlegs hreinsunarkerfis væri verkfræðilegt úrlausnarefni, þetta hafi verið óljóst og skipulagsfulltrúinn ófær um að gera kröfur út frá því.
2014. Umsögn vegna breytingar á aðalskipulagi, fjölgun íbúða í Reykjahlíð. Umhverfisstofnun segir mikilvægt eða nauðsynlegt að heildaráætlun um endurbætur og frekari uppbyggingu fráveitu í Reykjahlíð verði unnin áður en framkvæmdir verði leyfðar. Uppbygging fráveitukerfis þurfi að fara fram samhliða uppbyggingu á svæðinu. Varasamt sé að setja vararotþró í ljósi reynslunnar, sveitarfélögum hafi gengið illa að uppfylla reglugerðina um fráveitur og skólp frá 1999. Krafan um úrbætur og áætlanagerð kemur fram í fleiri umsögnum.
2015. Mývatn verður hvítt á litinn sökum súrefnisþurrðar.
2015. Efla Verkfræðistofa skilar skýrslu með forhönnun og kostnaðarmati á fráveitukerfi sem uppfyllir kröfu um þriggja þrepa hreinsun fyrir Reykjahlíðarhverfi. Kostnaður við verkefninn er talinn nema 200-325 milljónum króna. Fram kemur að áfangaskipta megi framkvæmdum þannig að kostnaður dreifist á 5-10 ár. Byggingu nýrrar hreinsistöðvar sé ekki hægt að áfangaskipta, mestur kostnaður falli því til í upphafi. Fram kemur að það myndi kosta mun meira, um milljarð, að bæta skólplagnir alls staðar í hreppnum. Þetta er tímasetta áætlunin sem Umhverfisstofnun hafði kallað eftir.
2015. Sveitarfélagið fer þess á leit við fjárlaganefnd að hún veiti 120 milljónum til fráveituframkvæmda í Skútustaðahreppi á árinu 2016 en sú beiðni var ekki samþykkt. Í beiðninni segir:
„Ljóst er að Skútustaðahreppur einn og sér hefur vart fjárhagslegt bolmagn til að standa fyrir þessum framkvæmdum óstuddur. Íbúar sveitarfélagsins eru í dag rúmlega 400. Heldartekjur sveitarfélagsins eru um 390 milljónir og skuldahlutfallið í dag er um 60%. Til þess að koma til móts við sveitarfélagið og stuðla að verndun viðkvæms lífríkis Mývatns er þess óskað að fjárlaganefnd veiti 120 milljónum króna verkefnisins á árinu 2016. Jafnframt er þess óskað að fjárlaganefnd beiti sér fyrir að sveitarfélögum verði endurgreiddur VSK af fráveituframkvæmdum enda óeðlilegt að fáveituframkvæmdir sveitarfélaga myndi skattstofn fyrir ríkið."
2015. Fyrirhuguð stækkun Hótels Reykjahlíðar. TiIlaga að breytingu á aðalskipulagi send Umhverfisstofnun til umsagnar. Stofnunin bendir á að fráveitumál hótelsins séu ekki fullnægjandi og að áður en hugað sé að frekari stækkun þurfi að koma fram tímasett markmið um að uppfæra fráveitumál svo þau standist reglugerðir.
2015. Ekki tilkynnt um fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi hótels í landi Grímsstaða. Umhverfisstofnun gerir athugasemd við það og bendir á að hreppurinn þurfi að leita leyfis stofnunarinnar fyrir framkvæmdum innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár. Fram kemur að komið sé að þeim tímapunkti að Skútustaðahreppur móti sér stefnu varðandi það hvort áframhald eigi að vera á uppbyggingu innan verndarsvæðisins. Mikil uppbygging ferðaþjónustu síðastliðin ár hafi aukið álag á verndarsvæðið.
Janúar 2016. Frumvarp umhverfisráðherra um sameiningu Rannsóknarstöðvarinnar við Mývatn og Náttúrufræðistofnunar Íslands leggst illa í umsagnaraðila. Stofnanirnar tvær lýsa sig fylgjandi en aðrir sem skila umsögn eru andvígir. Í umsögnum komu fram áhyggjur af því að sameining yrði til þess að veikja rannsóknir við Mývatn.
Mars 2016. Skýrsla um ákomu og affall frá Mývatni unnin fyrir umhverfisráðuneytið. Fram kemur að styrkur niturs og fosfórs í grunnvatni hafi aukist frá árinu 1969. Ákoma frá íbúum og ferðaþjónustu skýri ekki aukninguna, hún sé aðallega tengd starfsemi Kísiliðjunnar, gögn bendi til þess að enn sé losun frá úrgangi hennar þó að styrkurinn sé farinn að minnka. Efla þurfi vöktun og rannsóknir til að segja frekar til um stöðuna. Gunnar Steinn Jónsson líffræðingur vann skýrsluna.
Maí 2016. Veiðifélag Laxár og Krákár sendir áskorun til yfirvalda umhverfismála að brugðist verði við því ástandi sem ríki á svæðinu.
Maí 2016. Landvernd skorar á ríkisstjórnina að grípa til ráðstafana til að bjarga lífríki Mývatns og Laxár.
Maí 2016. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis og þingmaður sjálfstæðisflokks, segir vandann á Mývatni krefjast tafarlausra viðbragða. Enginn tími gefist til venjulegrar þinglegrar meðferðar. Setja þurfi verulega fjármuni í að efla rannsóknir á vatninu en líka í beinar aðgerðir, svo sem að bæta frárennslismál. Ríkið þurfi að leggja til nauðsynlega fjármuni. „Við höfum þennan sjóð sem stofnaður var um uppbyggingu innviða ferðamannastaða," sagði hann. Jón hefur líka lýst því yfir að hann vilji hefja gjaldtöku af ferðamönnum. Sigrún Magnúsdóttir ráðherra sagðist fagna því, vissi Jón um lausa fjármuni til að bjarga Mývatni.
Maí 2016. Fjöregg Mývatns, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, heitir á Alþingi og ríkisstjórn að axla ábyrgð og sýna í verki að lögin um vernd Mývatns og Laxár séu meira en orðin tóm.
Maí 2016. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis fundar með sérfræðingum og sveitarstjórnendum um stöðuna. Formaður nefndarinnar, Höskuldur Þórhallsson, segir mikilvægt að stjórnvöld bregðist við stöðunni.
Maí 2016. Umhverfisráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, stofnar starfshóp sem skoða á málefni Mývatns sérstaklega. Hann á að skila niðurstöðum fyrir 17. júní. Hún segir Mývatn eina dýrmætustu náttúruperlu landsins og að stjórnvöldum beri skylda til að standa um það vörð. Ekki væri þó hægt að benda á neinn einn sökudólg eða finna töfralausn.
Maí 2016. Heilbrigðisnefnd ítrekar fyrri tilmæli til sveitarstórnar um úrbætur í skólpmálum og fór þess á leit við ríkið að það veitti hreppnum fjárstuðning. Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri heilbrigðseftirlits Norðurlands eystra, telur að stjórnvöldum beri lagaleg og siðferðisleg skylda til að bregðast við stöðunni, ellegar gæti þurft að takmarka fjölda ferðamanna sem fara megi um svæðið. Í bókuninni sem er frá í fyrradag segir:
„ Að mati heilbrigðisnefndar er nauðsynlegt að byggja vönduð hreinsivirki fyrir skólp fyrir þéttbýlið í Reykjahlíð, Vogum og Skútustöðum og víðar þar sem byggð er þétt á vatnasvæði Mývatns. Einnig er mikilvægt að bændur eigi þétt og vönduð 6 mánaða haughús og hagi búrekstri í samræmi við starfsreglur Umhverfisstofnunar um góða búskaparhætti, takmarki og vandi alla notkun á áburði og skili landbúnaðarúrgangi í viðurkennda förgun og að gert verði átak í flokkun, móttöku og förgun landbúnaðarúrgangs. Heilbrigðisnefnd mælist jafnframt til þess að ríkisstjórn veiti Skútustaðahreppi nú þegar fjárhagslegan stuðning vegna kostnaðar við hönnun, byggingu og rekstur á hreinsivirkjum fyrir skólp í Skútustaðahreppi. Í þessu sambandi er bent á kröfu um ítarlega skólphreinsun skv. reglugerð um verndun Mývatns og Laxár (nr. 665/2012). Um er að ræða mjög kostnaðarsamar og íþyngjandi kröfur fyrir fjárhag lítils sveitarfélags og jafnframt felast miklir hagsmunir og ábyrgð í því að vernda Mývatn sem náttúruperlu á heimsvísu. Heilbrigðisnefnd minnir á mikilvægi þess að hraða úrbótum í fráveitumálum í Skútustaðahreppi eins og kostur er, þannig að ekki þurfi að koma til þess að takmarka fjölda ferðamanna á vatnasvæði Mývatns."
Maí 2016. Sigrún Magnúsdóttir segir líklegt að hún muni á næstunni leggja fram minnisblað þar sem óskað verði eftir því að Mývatn fái fjárhagsaðstoð til að ráðast í úrbætur á fráveitukerfi. Mývatn sé sérstakt og því beri stjórnvöldum að láta það njóta vafans.