Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Mývatn: Ráðherra vill styrkja Skútustaðahrepp

13.05.2016 - 14:29
Mynd: RÚV / RÚV
„Ég er því miður ekki með peningavaldið en mér finnst líklegt að ég leggi fyrr en síðar fram í ríkisstjórn minnisblað þar sem ég bið um að við aðstoðum sveitarstjórnina út af þeim auknu kröfum sem við höfum gert og viljum gera varðandi fráveitumál, þó skýrslur kannski sanni að það orsaki ekki breytinguna sem nú er þá á vatnið alltaf að njóta vafans,“ segir Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra um Mývatn og fráveitumálin sem sveitarfélagið hefur beðið stjórnvöld að hjálpa sér að bæta úr.

Þrettán sumra myrkur: Hvað er að gerast?

Blábakteríur eru að taka yfir lífríki Mývatns með því að útiloka birtu úr vatninu. Síðastliðin þrettán sumur hefur verið myrkur á botni vatnsins og kúluskíturinn er horfinn. Mikið er rætt um þátt mannsins og hvort úrbætur í fráveitumálum Skútustaðahrepps myndu snúa þróuninni við. Óvissan væri hugsanlega minni ef fleiri og markvissari mælingar hefðu verið gerðar á efnasamsetningu vatnsins. Engar mælingar voru gerðar áður en Kísiliðjan kom 1966, það er því enginn samanburður til við fyrri tíð. Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, hefur stofnað starfshóp sem á að kortleggja vandann, hún vill að Mývatn njóti vafans.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Vill ekkert segja um upphæðir

Skútustaðahreppur óskaði í fyrra eftir 120 milljónum á fjárlögum til að gera úrbætur á fráveitukerfi. Sigrún vill ekkert segja til um upphæðir enn sem komið er. En er ekki líklegt að fleiri sveitarfélög banki nú upp á og biðji um fráveitustyrk. Sigrún segir að það gildi sérlög um Mývatn og því hafi stjórnvöld ríkari skyldur gagnvart Skútustaðahreppi en öðrum sveitarfélögum. 

„Hverju sveitarfélagi finnst eflaust sín sérstaða mikilvæg og það er bæði mín og annarra að skoða það frekar í framtíðinni. “

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Sigrún Magnúsdóttir.
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: RÚV / Kristín Sigurðardóttir
Hraundrangar í Mývatni.

Ástandið orðið mjög alvarlegt

Aðalbjörg Guttormsdóttir sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir að ástandið í vatninu sé orðið mjög alvarlegt og vistfræðilegu þoli þess fari hrakandi. Sigrún Magnúsdóttir segir óljóst hvort vandinn sé af mannavöldum og vísar í skýrslu sem hún fól Gunnari Steini Jónssyni, líffræðingi, að gera fyrir ráðuneytið og hann skilaði í mars. Þar kemur fram að styrkur niturs og fosfórs í vatninu hafi aukist frá árinu 1969 en ákoma frá íbúum og ferðaþjónustu skýri ekki aukningu í næringarefnum í grunnvatni, hún sé aðallega tengd starfsemi Kísiliðjunnar, gögn bendi til þess að enn sé losun frá úrgangi hennar þó að styrkurinn sé farinn að minnka. Fram kemur að niðurstöðurnar séu háðar mikilli óvissu, ekkert bendi til skyndilegra breytinga í ákomu á Mývatn, frekar að hugsanlegar breytingar kunni að vera hægar og sígandi yfir langt timabil. Mikilvægt sé að koma á kerfisbundinni og reglulegri vöktun á svæðinu sem tæki til ýmissa þátta, svo sem skólps. 

Viðbótarinnspýting gæti ráðið úrslitum

Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra og Árni Einarsson, forstöðumaður náttúrurannsóknarstöðvar Mývatns, telja að úrbætur í fráveitumálum ásamt fleiri aðgerðum til að minnka losun áburðarefna í grunnvatn geti skipt sköpum fyrir vistkerfi vatnsins. Vatnið sé næringarefnaríkt frá náttúrunnar hendi en öll viðbót frá mönnum geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Oft velti lítil þúfa þungu hlassi.

„Mývatn er mjög næringarefnaríkt frá náttúrunnar hendi, það er mikil innspýting af næringarefnum inn í það af náttúrulegum ástæðum þess vegna hefur öll auka innspýting inn í vistkerfið gríðarleg áhrif. Jafnvel þó það komi ekki mikið frá mannlegum athöfnum getur það magn sem bætist við hrint af stað einhvers konar keðjuverkun. Við teljum í ljósi upplýsinga sem við höfum fengið frá rannsóknaraðilum að það sé þetta sem er að gerast meðal annars. Við getum þess vegna stýrt því, þetta er það sem við getum gert. VIð getum  bætt fráveitukerfið, við getum stýrt áburðargjöf á bökkum Laxár og Mývatns, bændur bera áburð þó það hafi minnkað í gegnum árin. Svo er það líka stóra samhengið, loftslagsbreytingar gætu líka verið að hafa þarna áhrif, það er að hlýna og við sjáum að ísinn tekur fyrr af vatninu og það leggur seinna. Allar þessar breytur spila inn í en þeir faktorar sem við getum haft stjórn á, við ættum að reyna að hafa stjórn á þeim,“ segir Aðalbjörg. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Reykjahlíð
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv

Óljóst hvers eðlis vandinn er

Gunnar Steinn segir skýrsluna ekki endanlega niðurstöðu og að ekki sé rétt að stilla henni upp sem mótsögn við fullyrðingar Árna og fleiri um að áhrifum frá mannfólki sé að einhverju leyti um að kenna. Hann segist þó ekki viss um að það leysi allan vanda að lagfæra skólpkerfið. Vandinn sé flókinn, köfnunarefni geti borist með lofti frá Evrópu, aukning hafi orðið á því eftir 1950, umferð um svæðið hafi áhrif, skólp og áburður sömuleiðis. Ekki liggi enn fyrir hvort vandinn eigi upptök sín í vatninu sjálfu eða hvort hann sé til kominn vegna utanaðkomandi áhrifa. TIl þess að geta lýst orsakasamhengi þurfi að auka mælingar og vöktun. Einhverjar rannsóknir á næringarefnainnihaldi vatnsins hafa verið gerðar á vegum Ramý en Árni segist ekki hafa fengið sérstakar fjárveitingar til þess. Sigrún segir að það hafi komið sér á óvart að ekki væru til rannsóknir aftur í tímann. Hún segir stjórnvöld ekki hafa brugðist í því að vakta og vernda Mývatn. 

„Mér finnst ekki að við höfum brugðist, það er eitthvað í náttúrunni kannski að gerast sem við höfum ekki alfarði skýringu á og það er sjálfsagt að reyna að kalla til okkar færustu sérfræðinga og vísindamenn til að reyna að skoða það.“

Hreppnum beri skylda til að bregðast við

Yngvi Ragnar Kristjánsson, oddviti Skútustaðahrepps vill einnig að lífríkið njóti vafans. Hann segir að þrátt fyrir að orsakasamhengi sé óljóst og áhrif mannsins hugsanlega lítil beri hreppnum skylda til að bregðast við. 

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Mynd úr safni Mynd: Atli Harðarson - Flickr
Dregið hefur úr notkun áburðar í sveitinni.

Kannski skila aðgerðir í skólpmálum engu

Árni viðurkennir að það sé hugsanlegt að aðgerðir í skólpmálum og minni notkun áburðar í landbúnaði myndi ekki skila árangri, þetta sé þó það sem hægt sé að hafa áhrif á og því verði að reyna. Hann segir að vatnið sýni skýr einkenni ofauðgunar, þá séu miklar sveiflur í  magni þörunga á milli ára og svo virðist sem lítið þurfi til þess að þörungablómi bresti á. Það gefi til kynna að jafnvægið sé viðkvæmt, magn næringarefna í vatninu sé nálægt þröskuldinum. Hugsanlega sé þar af leiðandi hægt að koma í veg fyrir blómann með að draga úr losun næringarefna frá mannabyggð. 

„Allir liggja undir grun“

Öll aukning af mannavöldum er af hinu slæma að sögn Árna. Hver og ein nitur- eða fosfóreining fer tíu umferðir í lífríkinu áður en hún annaðhvort rennur út úr vatninu eða sest í setlög á botninum til frambúðar. Það taki langan tíma að vinda ofan af aukningu næringarefna í vistkerfinu.  Árni segi ástand vatnsins liggja þungt á íbúum. Þegar Mývatn láti svona liggi allir undir grun, það sé erfitt fyrir fyrirtæki að sitja undir því og raunar alla Mývetninga. Fólk sé þó ekki farið að sleppa klósettferðum. 

Lengi farið fram á úrbætur í fráveitumálum

Umhverfisstofnun hefur lengi bent hreppnum á að gera þyrfti úrbætur í fráveitumálum. Ný reglugerð um verndun Mývatns og Laxár tók gildi árið 2012 og við það voru kröfur um fráveitumál hertar. Næstu tvö árin ræddu hreppurinn og Umhverfisstofnun um hvernig skilja bæri reglugerðina og hvað nákvæmlega hreppurinn þyrfti að gera til að uppfylla hana. Haustið 2014 sendi Umhverfisstofnun minnisblað þar sem tekinn var af allur vafi. Skólp átti að sæta ítrustu hreinsun og hreinsa úr því bæði fosfór og köfnunarefni. Óskað var eftir tímasettri áætlun frá sveitarfélaginu um hvernig skyldur yrðu uppfylltar.

Tekið til við að hanna og kostnaðarmeta

Þegar þetta lá fyrir hófst sveitarfélagið handa, leitað var til verkfræðistofunnar Eflu og lauk hún skýrslu um forhönnun og kostnaðarmat í fyrra. Samkvæmt mati stofunnar kann það að kosta um 325 milljónir að laga fráveitukerfið í Reykjahlíð og upp undir milljarð, eigi að taka allt skólpkerfið í hreppnum í gegn. Sveitarfélagið hefur ekki fjárhagslega burði til að ráðast í framkvæmdina. Stjórnin kallaði í fyrra eftir því að fjárlaganefnd veitti fé til verkefnisins en við því var ekki orðið. Aðalbjörg segir stjórnvöld hafa skyldum að gegna og vísar til sérlaga um svæðið, Ramsar-samningsins og fleiri alþjóðasamninga. 

Hugsanlega þurfi að takmarka fjölda ferðamanna

Alfreð telur brýnt að sveitarfélagið geri úrbætur og segir að ríkinu beri siðferðisleg og lagaleg skylda til að aðstoða það, sanngirnissjónarmið mæli með því sömuleiðis. Í bókun heilbrigðisnefndar frá í gær segir að verði úrbætur ekki gerðar fljótlega gæti þurft að takmarka fjölda ferðamanna á vatnasvæði Mývatns. 

Mývatn hvítt að lit
 Mynd: Eyþór - RÚV
Mjallhvítt Mývatn, sumarið 2015.
Mynd með færslu
 Mynd: Jónsson Jónsson Jónsson - Jóhannes Jóhannes Jóhannes
Skólpmál á Selfossi hafa verið mikið í umræðunni síðastliðin ár.

Margir í basli með skólpmálin

Aðalbjörg segir að litlum sveitarfélögum hafi mörgum gengið illa að uppfylla reglugerð um fráveitumál frá 1999. Þetta sé kannski ekki efst á forgangslistanum og stundum skorti sveitarfélög fjárhagslegt bolmagn. 

„Það var hér einu sinni þannig að það var hvatakerfi, ef sveitarfélög byrjuðu að fara í þessar framkvæmdir þá fengu þau endurborgað frá ríkinu ef þau héldu sig innan tímaramma. Svo hætti það og ekkert tók við. Sveitarfélögin urðu svolítið eyríki í þessu, fengu enga aðstoð lengur. Nú er verið að endurskoða reglugerðina um fráveitur og skólp þannig að það er kannski að opnast gluggi núna til þess að taka þessi mál til heildstæðrar endurskoðunar.“

Nokkur hótel í burðarliðnum

Áætlað er að nokkur ný hótel rísi í hreppnum á næstunni. Umhverfisstofnun hefur ítrekað gefið til kynna í umsögnum sínum um skipulagsákvarðanir í hreppnum að það þurfi að huga að fráveitumálum áður en ráðist verði í uppbyggingu. Aðalbjörg segir að það sé undir sveitarfélaginu komið hversu langt verði gengið áður en nýtt fráveitukerfi verður tekið í gagnið en æskilegt væri að þessi uppbygging færi fram samhliða. 

„Ég hef enga trú á öðru en að sveitarfélagið verði með þrýsting þar á um, að þessi hótel og gistirými sem bætast við, það verði sett upp þarna hreinsistöð fyrir þær byggingar áður en fráveitukerfið verður byggt upp, ef tímaramminn er sá, þannig að hver og einn framkvæmdaraðili verði þá að hreinsa sitt skólp eða bara keyra því út af svæðinu.“

Hótel sveitarstjórans uppfyllir ekki reglugerð

Yngvi Ragnar, oddviti hreppsins, segir að gerð sé krafa um að öll ný hótel séu með fullkomið kerfi. Yngvi rekur sjálfur eldra hótel á svæðinu, hótel sem ekki er með fráveitukerfi í samræmi við reglugerð. En telur hann sig ekki vera beggja vegna borðsins? Er hann í stöðu til að leggja hart að hóteleigendum á svæðinu? 

„Ef ég er sjálfum mér samkvæmur get ég það alveg, já. Mitt hótel er undir sama stakk sett og önnur sem voru komin til skjalanna þegar þessi greining kom, við þurfum að bæta okkar frárennslismál í framtíðinni.“

Hann sagði það forgangsatriði að byrja við Ytri-flóann. Það hafi vísindamenn og fulltrúar Umhverfisstofnunar sagt. Yngvi bindur vonir við störf starfshóps umhverfisráðherra, að hann komi með tillögur að einhverju sem sveitarfélagið geti gert til að stemma stigu við vandanum. Sveitarfélagið hefur að sögn Yngva sett fráveitumálin í forgang og lítið skipt sér af áburði og úrgangi frá bóndabýlum. 

Áhrif athafna mannsins á Mývatn

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurbjörn Ásmundsson - RÚV
Grafa sökk í Mývatn við tökur á kvikmyndinni Fast 8 í vetur.

Athafnir mannsins hafa um áratugalangt skeið haft áhrif á vistkerfi Mývatns. Fyrst má nefna nútímavæðingu landbúnaðar og breytingar á áburðarnotkun um miðja síðustu öld. Árið 1966 tók Kísilgúrverksmiðjan til starfa, fyrir tilstuðlan hennar varð til þorp í Reykjahlíð og íbúum í sveitinni fjölgaði, byggðin óx svo enn frekar með byggingu Kröfluvirkjunar á áttunda áratugnum. Með fjölgun íbúa jókst magn þess skólps sem fór í rotþrær á vatnasviði Mývatns. Deilt er um hversu víðtæk áhrif Kísilgúrverksmiðjan hafði á lífríkið. Viðmælendur Spegilsins, Árni og Aðalbjörg, segja þau hafa verið mikil og að þeirra gæti enn. Átt hafi verið við jafnvægið í vatninu. Enn eru djúpar gryfjur á botni Mývatns eftir kísiltöku. Í þessar gryfjur safnast upp næringarefni. Samhliða langtímahningnun lífríkisins síðastliðna áratugi segir Árni að náttúrulegar skammtímasveiflur í afkomu tegunda við vatnið, sem spanna sjö til átta ár, hafi verið að dýpka greinilega og verða öfgafyllri, sú þróun hafi staðið yfir frá því um 1970, eða skömmu eftir að kísilgúrverksmiðjan tók til starfa.

Virkjanir breyttu útfalli

Virkjanirnar þrjár sem reistar voru við Laxá árin 1939 til 1973 breyttu útfalli vatnsins. Árni segir óljóst hver áhrif þess hafi verið. Mengun frá fráveitukerfi hefur lengi verið til umræðu. Skólpi er ekki veitt í Mývatn beint, heldur felst hættan í því að það berist úr rotþróm, yfir í grunnvatn og þaðan út í vatnið. 

Klósettpappírsrúlla.
 Mynd: Colin Brough - RGBStock
Gert er ráð fyrir mikilli aukningu á skólpmagni vegna ferðamanna.

Árni Einarsson segir að árið 1985 hafi farið að hlaupa mikill vöxtur í túrismann, síðan hefur fjöldi ferðamanna auðvitað margfaldast. Í skýrslunni sem Verkfræðistofan Efla gerði fyrir Skútustaðahrepp í fyrra, um kostnað við nýtt fráveitukerfi, er áætlað að á næstu árum muni það skólpmagn sem fer um fráveitukerfið aukast verulega, nú fara um 82 rúmmetrar skólps frá Reynihlíð og Reykjahlíð á sólarhring en á næstu árum er gert ráð fyrir að skólprennlið nemi 200 rúmmetrum á sólarhring, þar er áætlað að 95 rúmmetrar skrifist á ferðamenn. Það á að byggja fleiri hótel og fjölga almenningssalernum. Árni segir óljóst hversu mikið af næringarefnum berst frá rotþróm, út í grunnvatn og þaðan í Mývatn en að með auknu skólpmagni sé hætt við að streymið í Mývatn aukist. Hvaða áhrif þetta hefur á stöðuna í vatninu almennt, er óljóst, eins og fyrr segir. 

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: RÚV / Kristín Sigurðardóttir
Ýmislegt hefur á daga vatnsins drifið.

Tímalína - nokkrir mikilvægir atburðir í samtvinnaðri sögu manns og Mývatns með sérstakri áherslu á fráveitumál 

 

1939-1973. Þrjár vatnsaflsvirkjanir í Laxá. Nútímalandbúnaðarhættir ryðja sér til rúms. 

1966. Kísilgúrverksmiðjan tekur til starfa. 

1971. Hitaveita lögð, borun hafði áhrif á hitastig lindarvatns á vissum svæðum. 

1974. Vinna hófst við Kröfluvirkjun. 

1974. Mývatn friðlýst. 

Kröflueldar. 1975-1984. Landris við Mývatn. 

1978. Alþingi samþykkir Ramsar-samninginn, Mývatn og Laxá samþykkt sem fyrstu Ramsar-svæðin á Íslandi. 

1999. Reglugerð um fráveitur og skólp. Í sjöundu grein segir: Skólp skal hreinsa með ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa ef viðtaki er viðkvæmur eða nýtur sérstakrar verndar vegna nytja af ýmsu tagi, lífríkis, jarðmyndana eða útivistar, auk annarra sérstakra vatnsverndunarsvæða.

2004. Þúsund lítra olíutankur fellur í Mývatn. Hann verður ekki fjarlægður og er ekki talin ógna lífríki. 

2004. Kísilgúrverksmiðjunni lokað. 

2004. Sérlög um verndun Mývatns og Laxár taka við af lögum frá 1974, verndarsvæðið er minnkað. „Markmið laga þessara er að stuðla að náttúruvernd á Mývatns- og Laxársvæðinu í samræmi við meginregluna um sjálfbæra þróun og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins verði ekki stefnt í hættu af mannavöldum." Brot á lögunum varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Beita má dagsektum, allt að 50.000 krónum til að knýja menn til framkvæmda á ráðstöfunum sem þeim er skylt að hlutast til um.

2009. Ný löggjöf um uppbyggingu og rekstur fráveitna sem afmarkar skyldur sveitarfélaga hvað varðar fráveitumál og framkvæmdir. Til fráveitu telst allt lagnakerfi sem flytur frárennsli frá heimilum, stofnunum, atvinnufyrirtækjum, götum, gönguleiðum, lóðum og opnum svæðum og einnig öll mannvirki sem reist eru til meðhöndlunar eða flutnings á frárennsli. Um söfnun, hreinsun og losun skólps gildir reglugerð um fráveitur og skólp. Þeir aðilar sem sjá um hirðu og meðhöndlun seyru skulu hafa til þess tilskilin starfsleyfi í samræmi við reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

2010. Mývatn sett á appelsínugulan lista Umhverfisstofnunar vegna þess að í rannsóknum komu fram vísbendingar um að lífsgæðum í vatninu færi hrakandi. 

2011. Innleiðing Vatnatilskipunar ESB hófst. Fjármagn til hennar var skorið niður eftir stjórnarskipti árið 2013. Aðalbjörg segir að hefði innleiðingu verið haldið áfram væri vöktun Mývatnssvæðisins mun betri en hún er í dag.

2011. Aðalskipulag Skútustaðahrepps kemur út, gildir frá 2011-2023. Fram kemur að fráveitumál séu í góðum farvegi. Umhverfisstofnun hafnar þeirri staðhæfingu. 

2012. Mývatn sett á rauðan lista Umhverfisstofnunar yfir svæði sem eiga á hættu að tapa verndargildi sínu. 

2012. Ný reglugerð um verndun Mývatns og Laxár - í kafla um fráveitumál er vísað í reglugerðina frá 1999 og löggjafar frá 2009. Auknar kvaðir til allra eigenda fráveitna; sveitarfélagsins, atvinnurekenda og bænda á lögbýlum. Fulltrúi Umhverfisstofnunar segir að þrátt fyrir nýja reglugerð hafi lengi legið fyrir að fráveitumálin væru í ólestri. Frá árinu 1999 hafi verið gerð krafa um ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa, skyldurnar hafi því ekki breyst verulega. Fulltrúi heilbrigðiseftirlits segir nýjar kröfur mikla áskorun, gerð sé krafa um nútímaskólphreinsimannvirki sem ekki fyrirfinnist hér á landi. Engar fyrirmyndir séu til. 

2013- Nefnd á vegum Umhverfisráðherra endurskoðar reglugerð um fráveitumál.

2012-2014. Samtal á sér stað milli Umhverfisstofnunar og Skútustaðahrepps um hvað felist í orðalagi reglugerðarinnar, hvort það þurfi bæði að hreinsa fosfór og köfnunarefni.

2014. Sveitarstjóraskipti verða í Skútustaðahreppi. Sumir segja nýja stjórn hafa verið viljugri til að gera úrbætur. Aðrir að hún hafi loksins haft burði til þess, þar sem forsendur um hvernig kerfið skyldi líta út lágu loks fyrir.

Vor 2014. Út kemur rit eftir Árna Einarsson, forstöðumann Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn, sem ber heitið Kúluskíturinn í Mývatni, minningarorð. Þar kemur fram að kúluskítsbreiðurnar sérstöku séu horfnar af botni Mývatns. Þar segir að eina leiðin til að snúa óheillaþróuninni við sé að takmarka eins og hægt er að að næringarefni á borð við fosfór og köfnunarefni berist í grunnvatn og þaðan í Mývatn.

Mynd með færslu
Kúluskíturinn svokallaði, eitt helsta einkenni Mývetnskrar vatnaflóru til skamms tíma, er svo gott sem horfinn úr vatninu.  Mynd: RÚV
Kúluskítur.

2014. Umhverfisstofnun tekur af allan vafa um hvers sé krafist af Skútustaðahreppi. Hreinsa þurfi bæði köfnunarefni og fosfór. Stofnunin sendi Skútustaðahreppi minnisblað þar sem kröfum um frárennslismál sem finna má í reglugerð um verndun Mývatns og Laxár frá árinu 2012 er lýst og sveitarfélagið minnt á ábyrgð sína á því að fráveitumál séu í réttum farvegi. Fram kemur að mikilvægt sé að ráðast strax í aðgerðir til að tryggja að einstök hús í dreifbýli uppfylli kröfur um svokallaða tveggja þrepa hreinsun skólps og koma þannig í veg fyrir mengun í Mývatni af völdum næringarefna og annarra mengunarefna sem leiðst geti út í skólpvatn. Þá kom fram að nauðsynlegt væri að sveitarfélagið setti fram tímasetta aðgerðaáætlun um að koma á ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa frá þéttbýli og atvinnustarfsemi, eins og reglugerðin kveður á um. Loks er vakin athygli á því að Mývatn hafi verið á rauðum lista frá árinu 2012.  Sveitarfélagið hóf í kjölfarið vinnu við útfærslu og kostnaðarmat. Leitaði til verkfræðistofunnar Eflu. Yngvi Ragnar, oddviti, segir að fram að því hafi verið talað um að útfærsla ítarlegs hreinsunarkerfis væri verkfræðilegt úrlausnarefni, þetta hafi verið óljóst og skipulagsfulltrúinn ófær um að gera kröfur út frá því. 

2014. Umsögn vegna breytingar á aðalskipulagi, fjölgun íbúða í Reykjahlíð. Umhverfisstofnun segir mikilvægt eða nauðsynlegt að heildaráætlun um endurbætur og frekari uppbyggingu fráveitu í Reykjahlíð verði unnin áður en framkvæmdir verði leyfðar. Uppbygging fráveitukerfis þurfi að fara fram samhliða uppbyggingu á svæðinu. Varasamt sé að setja vararotþró í ljósi reynslunnar, sveitarfélögum hafi gengið illa að uppfylla reglugerðina um fráveitur og skólp frá 1999.  Krafan um úrbætur og áætlanagerð kemur fram í fleiri umsögnum. 

2015. Mývatn verður hvítt á litinn sökum súrefnisþurrðar. 

2015. Efla Verkfræðistofa skilar skýrslu með forhönnun og kostnaðarmati á fráveitukerfi sem uppfyllir kröfu um þriggja þrepa hreinsun fyrir Reykjahlíðarhverfi. Kostnaður við verkefninn er talinn nema 200-325 milljónum króna. Fram kemur að áfangaskipta megi framkvæmdum þannig að kostnaður dreifist á 5-10 ár. Byggingu nýrrar hreinsistöðvar sé ekki hægt að áfangaskipta, mestur kostnaður falli því til í upphafi. Fram kemur að það myndi kosta mun meira, um milljarð, að bæta skólplagnir alls staðar í hreppnum. Þetta er tímasetta áætlunin sem Umhverfisstofnun hafði kallað eftir. 

2015. Sveitarfélagið fer þess á leit við fjárlaganefnd að hún veiti 120 milljónum til fráveituframkvæmda í Skútustaðahreppi á árinu 2016 en sú beiðni var ekki samþykkt. Í beiðninni segir:

„Ljóst er að Skútustaðahreppur einn og sér hefur vart fjárhagslegt bolmagn til að standa fyrir þessum framkvæmdum óstuddur. Íbúar sveitarfélagsins eru í dag rúmlega 400. Heldartekjur sveitarfélagsins eru um 390 milljónir og skuldahlutfallið í dag er um 60%. Til þess að koma til móts við sveitarfélagið og stuðla að verndun viðkvæms lífríkis Mývatns er þess óskað að fjárlaganefnd veiti 120 milljónum króna verkefnisins á árinu 2016. Jafnframt er þess óskað að fjárlaganefnd beiti sér fyrir að sveitarfélögum verði endurgreiddur VSK af fráveituframkvæmdum enda óeðlilegt að fáveituframkvæmdir sveitarfélaga myndi skattstofn fyrir ríkið."

2015. Fyrirhuguð stækkun Hótels Reykjahlíðar. TiIlaga að breytingu á aðalskipulagi send Umhverfisstofnun til umsagnar. Stofnunin bendir á að fráveitumál hótelsins séu ekki fullnægjandi og að áður en hugað sé að frekari stækkun þurfi að koma fram tímasett markmið um að uppfæra fráveitumál svo þau standist reglugerðir. 

2015. Ekki tilkynnt um fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi hótels í landi Grímsstaða. Umhverfisstofnun gerir athugasemd við það og bendir á að hreppurinn þurfi að leita leyfis stofnunarinnar fyrir framkvæmdum innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár. Fram kemur að komið sé að þeim tímapunkti að Skútustaðahreppur móti sér stefnu varðandi það hvort áframhald eigi að vera á uppbyggingu innan verndarsvæðisins. Mikil uppbygging ferðaþjónustu síðastliðin ár hafi aukið álag á verndarsvæðið. 

Janúar 2016. Frumvarp umhverfisráðherra um sameiningu Rannsóknarstöðvarinnar við Mývatn og Náttúrufræðistofnunar Íslands leggst illa í umsagnaraðila. Stofnanirnar tvær lýsa sig fylgjandi en aðrir sem skila umsögn eru andvígir. Í umsögnum komu fram áhyggjur af því að sameining yrði til þess að veikja rannsóknir við Mývatn. 

Mars 2016. Skýrsla um ákomu og affall frá Mývatni unnin fyrir umhverfisráðuneytið. Fram kemur að styrkur niturs og fosfórs í grunnvatni hafi aukist frá árinu 1969. Ákoma frá íbúum og ferðaþjónustu skýri ekki aukninguna, hún sé aðallega tengd starfsemi Kísiliðjunnar, gögn bendi til þess að enn sé losun frá úrgangi hennar þó að styrkurinn sé farinn að minnka. Efla þurfi vöktun og rannsóknir til að segja frekar til um stöðuna. Gunnar Steinn Jónsson líffræðingur vann skýrsluna. 

Maí 2016. Veiðifélag Laxár og Krákár sendir áskorun til yfirvalda umhverfismála að brugðist verði við því ástandi sem ríki á svæðinu.

Maí 2016. Landvernd skorar á ríkisstjórnina að grípa til ráðstafana til að bjarga lífríki Mývatns og Laxár. 

Maí 2016. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis og þingmaður sjálfstæðisflokks, segir vandann á Mývatni krefjast tafarlausra viðbragða. Enginn tími gefist til venjulegrar þinglegrar meðferðar. Setja þurfi verulega fjármuni í að efla rannsóknir á vatninu en líka í beinar aðgerðir, svo sem að bæta frárennslismál. Ríkið þurfi að leggja til nauðsynlega fjármuni.  „Við höfum þennan sjóð sem stofnaður var um uppbyggingu innviða ferðamannastaða," sagði hann. Jón hefur líka lýst því yfir að hann vilji hefja gjaldtöku af ferðamönnum. Sigrún Magnúsdóttir ráðherra sagðist fagna því, vissi Jón um lausa fjármuni til að bjarga Mývatni. 

Maí 2016. Fjöregg Mývatns, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, heitir á Alþingi og ríkisstjórn að axla ábyrgð og sýna í verki að lögin um vernd Mývatns og Laxár séu meira en orðin tóm.

Maí 2016. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis fundar með sérfræðingum og sveitarstjórnendum um stöðuna. Formaður nefndarinnar, Höskuldur Þórhallsson, segir mikilvægt að stjórnvöld bregðist við stöðunni. 

Maí 2016. Umhverfisráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, stofnar starfshóp sem skoða á málefni Mývatns sérstaklega. Hann á að skila niðurstöðum fyrir 17. júní. Hún segir Mývatn eina dýrmætustu náttúruperlu landsins og að stjórnvöldum beri skylda til að standa um það vörð. Ekki væri þó hægt að benda á neinn einn sökudólg eða finna töfralausn. 

Maí 2016. Heilbrigðisnefnd ítrekar fyrri tilmæli til sveitarstórnar um úrbætur í skólpmálum og fór þess á leit við ríkið að það veitti hreppnum fjárstuðning. Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri heilbrigðseftirlits Norðurlands eystra, telur að stjórnvöldum beri lagaleg og siðferðisleg skylda til að bregðast við stöðunni, ellegar gæti þurft að takmarka fjölda ferðamanna sem fara megi um svæðið.  Í bókuninni sem er frá í fyrradag segir: 

„ Að mati heilbrigðisnefndar er nauðsynlegt að byggja vönduð hreinsivirki fyrir skólp fyrir þéttbýlið í Reykjahlíð, Vogum og Skútustöðum og víðar þar sem byggð er þétt á vatnasvæði Mývatns. Einnig er mikilvægt að bændur eigi þétt og vönduð 6 mánaða haughús og hagi búrekstri í samræmi við starfsreglur Umhverfisstofnunar um góða búskaparhætti, takmarki og vandi alla notkun á áburði og skili landbúnaðarúrgangi í viðurkennda förgun og að gert verði átak í flokkun, móttöku og förgun landbúnaðarúrgangs. Heilbrigðisnefnd mælist jafnframt til þess að ríkisstjórn veiti Skútustaðahreppi nú þegar fjárhagslegan stuðning vegna kostnaðar við hönnun, byggingu og rekstur á hreinsivirkjum fyrir skólp í Skútustaðahreppi. Í þessu sambandi er bent á kröfu um ítarlega skólphreinsun skv. reglugerð um verndun Mývatns og Laxár (nr. 665/2012). Um er að ræða mjög kostnaðarsamar og íþyngjandi kröfur fyrir fjárhag lítils sveitarfélags og jafnframt felast miklir hagsmunir og ábyrgð í því að vernda Mývatn sem náttúruperlu á heimsvísu. Heilbrigðisnefnd minnir á mikilvægi þess að hraða úrbótum í fráveitumálum í Skútustaðahreppi eins og kostur er, þannig að ekki þurfi að koma til þess að takmarka fjölda ferðamanna á vatnasvæði Mývatns."

Maí 2016. Sigrún Magnúsdóttir segir líklegt að hún muni á næstunni leggja fram minnisblað þar sem óskað verði eftir því að Mývatn fái fjárhagsaðstoð til að ráðast í úrbætur á fráveitukerfi. Mývatn sé sérstakt og því beri stjórnvöldum að láta það njóta vafans. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV