Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Myrkrið hljótt

Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Erna Hrönn Ólafsdóttir er flytjandi og textahöfundur lagsins Myrkrið hljótt. Lagahöfundur er Arnar Ástráðsson.

Flytjandi og textahöfundur:

Fullt nafn: Erna Hrönn Ólafsdóttir

Aldur: 33 ára

Fyrri störf í tónlist: Ég var aðeins þriggja ára þegar ég ákvað að verða leik- og söngkona. Níu ára byrjaði ég í klassísku söngnámi sem ég stundaði í tíu ár en poppið heillaði meira þannig að ég sneri mér alfarið að því um tvítugt. Árið 2004 flutti ég til höfuðborgarinnar. Þá var popphljómsveitin Bermuda stofnuð og þar var ég aðalsöngkonan í fjögur ár. Hljómsveitin gaf út plötuna Nýr dagur á gamlárskvöld 2007. Á sama tíma stundaði ég nám í táknmálsfræði í Háskóla Íslands og hafði sérstaklega gaman af því. Ég hef verið viðloðandi Söngvakeppnina frá árinu 2006, sungið bakraddir í yfir 50 lögum og tvisvar farið út sem bakrödd í „stóru“ keppnina, fyrst með Jóhönnu Guðrúnu 2009 og ári síðar með Heru Björk í Osló. Þetta er í fimmta sinn sem ég keppi í Söngvakeppninni sem aðalsöngkona og í annað sinn sem ég syng lag sem Arnar Ástráðsson semur , en ég náði mínum besta árangri með laginu „Ástin mín eina” árið 2011. Síðustu ár hef ég tekið þátt í fjölmörgum sýningum og heiðurstónleikum, m.a. í Hárinu, MEAT LOAF, Tom Jones og U2.  Ég gaf út mína fyrstu sólóplötu fyrir jólin 2013 sem nefnist „Húmar að kveldi”.  Samhliða söngverkunum vinn ég við dagskrárgerð á útvarpsstöðvunum Bylgjunni og Létt-Bylgjunni. 

Lagahöfundur


Fullt nafn: Arnar Ástráðsson

Aldur: 47 ára

Fyrri störf í tónlistinni:  Nam píanóleik við Tónlistarskóla FÍH hjá Karli Sighvatssyni, Nýja Tónlistarskólann hjá Bjarna Jónatanssyni og Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Jónasi Ingimundarsyni. Samdi lagið Ástin mín eina, sem komst í úrslit Söngvakeppni Sjónvarpsins 2011 í flutningi Ernu Hrannar. Gaf út geisladiskinn State of mind, með frumsaminni danstónlist, 2012. Er taugaskurðlæknir, starfandi í Kaupmannahöfn. 

Hver er forsaga lagsins: Lagið samdi ég fyrir 4-5 árum en það var ekki fyrr en við ákváðum að senda lagið í keppnina sem Erna Hrönn samdi texta við það. Hann fjallar um fyrirbæri sem við flest könnumst við, ástarsorg.

Var lagið samið fyrir Eurovision/Söngvakeppnina: Já lagið var samið með Söngvakeppnina í huga, enda ekta “Eurovision ballaða“ að okkur finnst. 

 

Myrkrið hljótt

Í stutta stund þú dvaldir hér
en tókst þó samt að fanga hjarta mitt.
Í fyrstu gafst mér þitt.

Við elskuðumst um sumarnótt
og neistinn varð að báli alltof fljótt.

Svo hvarfstu ofurhljótt.

 

Sérhvert augnablik, hvert andartak

ég reyni þér að gleyma.
Mig skildir eftir eina...

 

Myrkrið hljótt

vefur um mig örmum sínum,
hljóðlátt sefar mína sál.
Dag og nótt

veit ég þarf að reyna
svo ég lifi á ný.

Í huga mínum vonaði
að framtíð biði björt, við yrðum eitt.
En fékk þó ekki neitt.

Hve sárt það er að hugsa um það
að geta ekki spurt hvað út af bar.
Því ég veit ég fæ ei svar.

 

Og hvert augnablik, hvert andartak

ég reyni þér að gleyma.
Mig skildir eftir eina...

 

Myrkrið hljótt

vefur um mig örmum sínum,
hljóðlátt sefar mína sál.
Dag og nótt

veit ég þarf að reyna
svo ég lifi á ný.

 

Kemst ég yfir þig?
Mín ást er heit
Mun ég vera nógu sterk?
Finnst ég þurfa kraftaverk.

 

Myrkrið hljótt

vefur um mig örmum sínum,
hljóðlátt sefar mína sál.
Dag og nótt

veit ég þarf að reyna
svo ég lifi á ný.

Svo ég lifi á ný!