Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Mýrdælingar vilja bregðast við strax

16.12.2015 - 15:51
Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Níels Kjartansson - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Níels Kjartansson - Mýrdalshreppur
Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Níels Kjartansson - Mýrdalshreppur
Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Níels Kjartansson - Mýrdalshreppur
Sveitarstjórn Mýrdalshrepps leggur þunga áherslu á að grípa strax til ráðstafana til verndar iðnaðar- og þjónustuhverfi sveitarfélagsins, vegna landbrots við ströndina í Vík. Á fundi sínum í gær fól sveitarstjórnin sveitarstjóra að ræða málið við innanríkisráðherra og kynna stöðuna fyrir þingmönnum Suðurkjördæmis.

Í minnisblaði Ásgeirs Magnússonar sveitarstjóra sem lagt var fyrir sveitarstjórnina í gær segir að mest tjón í óveðrinu á dögunum hafi orðið miðja vegu milli Víkurár og Steypustöðvarinnar. Þar hafi sjór rofið 20–30 metra skarð í sandbakkann, flætt alla leið að flóðvarnargarðinum og brotið á honum. Ljóst sé að í næstu stórveðrum muni fara illa, verði ekki þegar gripið til viðeigandi ráðstafana. Sveitarstjórinn segir að verulega hafi reynt á varnargarðinn frá 2011 undanfarna vetur og hann hafi látið mikið á sjá. Hann hafi þó varið varið ströndina sunnan þorpsins. Samdóma álit þeirra sem best þekki sé að án garðsins hefði tapast mikið land.

Vegagerðin áformar að gera annan garð austar á sandinum sem myndi verja iðnaðarhverfi þorpsins í vík og verslunar og þjónustustarfsemi. Um leið er áætlað að laga garðinn sem kominn er. Ásgeir Magnússon sveitarstjóri segir að við lokayfirferð fjárlaga fyrir næsta ár séu 40 milljónir ætlaðar til verksins, en þær dugi skammt miðað við þá stöðu sem nú sé uppi. Á myndum Þóris Kjartanssonar sem fylgja fréttinni má sjá hvernig hafaldan brýtur sandinn og svo samanburð á svæðinu þar sem landbrotið er mest.

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV