Myndskreyttur sáttmáli til marks um nýja tíma

01.12.2017 - 20:50
Mynd með færslu
 Mynd: úr sáttmála
Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar var myndskreyttur að þessu sinni. Það var auglýsingastofan Hvíta húsið sem sá um myndskreytinguna. Teymið sem sá um framsetninguna segir nútímalegt að myndskreyta stjórnarsáttmála, framsetningin sé til marks um að við lifum í sífellt sjónrænni heimi og viljum bæta léttleika inn á svið sem eru of þurr og tyrfin fyrir.

Sigtryggur Magnason, sem hélt utan um verkefnið fyrir hönd Hvíta Hússins, segist ekki vita til þess að stjórnarsáttmálar á Íslandi hafi áður verið myndskreyttir. „Þetta hefur yfirleitt bara verið Times New Roman og eini frumleikinn falist í mis-stórum línubilum,“ segir hann. „Þetta verður nútímalegra með myndum. Ætli þetta verði ekki bara youtube myndband fyrr eða síðar.“

Mynd með færslu
 Mynd: úr sáttmála

 

„Ég tala bara frá sjálfum mér, en það er ákveðin framsækni í þessum texta. Og sömuleiðis því að myndskreyta sáttmálann. Það er verið að opna á nýja tíma í framsetningu og samskiptum,“ segir Sigtryggur.

Sigtryggur segir að ætlunin hafi verið að fanga innihald stjórnarsáttmálans með myndunum og Viktoría Buzukina, grafíski hönnuðurinn sem teiknaði myndirnar, tekur undir það.

„Það var mjög skemmtilegt fyrir mig sem teiknara að reyna að fanga innihald sáttmálans með einhverjum fallegum formum. Við reyndum að gera teikningar sem voru einfaldar og nútímalegar og sem pössuðu við innihaldið,“ segir Viktoría.
 

Mynd með færslu
 Mynd: úr sáttmála

 

Sem dæmi um það nefnir hún mynd á síðu 28 í samningnum þar sem sjá má furðulegan kynjaáttavita. Þar eru ekki bara merki karla og kvenna heldur einnig trans-fólks. Í stjórnarsáttmálanum sjálfum segir: 

„Ríkisstjórnin vill koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks með metnaðarfullri löggjöf um kynrænt sjálfræði í samræmi við nýútkomin tilmæli Evrópuráðsins vegna mannréttinda intersex-fólks.“

 

Viktoría segir að téður áttaviti gefi til kynna að stjórnin sé víðsýn í málefnum hinsegin fólks.

Guðmundur Bernharð Flosason tók einnig þátt í verkefninu fyrir hönd Hvíta Hússins. Hann segir að verkefnið hafi verið skemmtileg áskorun. „Við fengum mjög knappan tíma til að leysa þetta verkefni. Verkefnið kom til okkar eftir hádegi á mánudegi og við þurftum að skila verkefninu af okkur um miðjan dag á miðvikudaginn,“ segir hann.

 

 

Mynd með færslu
 Mynd: úr sáttmála

Guðmundur tekur undir að myndskreytingin gæti verið til marks um nýja tíma. „Ég held að fólk vilji hafa léttara yfirbragð yfir hlutunum. Kannski vill fólk setja einhvern léttleika í það sem er þurrt fyrir,“ segir hann.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi