Hittumst í MoMA
Einn erlendu gestanna á málþinginu er Francesca Rosenberg deildarstjóri hjá fræðsludeild MoMA nútímalistasafnsins í New York. Hún mun segja frá verkefninu Meet me at MoMA sem er tileinkað alzheimer-sjúklingum en í fyrirlestri í Salnum í Kópavogi í kvöld mun Rosenberg einnig fjalla um hvernig safnið kemur til móts við sjón- og heyrnarskerta gesti sína, auk þess að segja frá verkefninu.
Fransesca var gestur Víðsjár fyrr í dag en viðtalið við hana má heyra í heild hér að ofan.
Stækkandi hópur
„Við hjá MoMA leggjum okkur fram að þjóna öllum okkar gestum og við búum yfir mikilli reynslu þegar kemur að því að ná til þeirra sem eiga við fötlun að etja,“ segir Rosenberg. „Fjöldi þeirra sem stríða við elliglöp eykst jafnt og þétt og þessu fólki mun bara fjölga á næstu árum. Þess vegna áttuðum við á okkur að safnið þyrfti að koma til móts við þarfir þessa hóps. Við höfum því sett upp dagskrá sem snýr að þeim sem eru á fyrstu og miðstigum sjúkdómsins.“
Minningar kvikna
Rosenberg segir þau hjá safninu ekki endilega vera beint að leitast við að draga fram gamlar minningar hjá þeim sem taka þátt í verkefninu. „Myndlistin hefur samt þessi áhrif á sjúklingana, það er ýmislegt sem kviknar og kemur fram. Við tökum eftir því að það að skoða saman myndlist og ræða hana virðist virkja langtímaminnið.
Ég er á því að list sé frábær miðill til að nota í umræðu með alzheimer sjúklingum af því að hún fer ekki fram á gott minni þannig séð. Hún er bara þarna beint fyrir framan mann og við getum rætt hana fram og til baka. Sú umræða verður oft ótrúlega opin og frjó því að alzheimer-sjúklingar halda oft ekki aftur af sér þegar kemur að skoðunum. Þetta fólk opnar sig og talar frjálst.“