Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Myndlistin kveikir á langtímaminninu

Mynd: ASSOCIATED PRESS / AP

Myndlistin kveikir á langtímaminninu

19.09.2017 - 16:25

Höfundar

Listir og menning sem meðferð: íslensk söfn og Alzheimer er yfirskrift málþings sem haldið verður í Ráðhúsi Reykjavíkur og Listasafni Íslands á milli kl. 13 og 18 á morgun, miðvikudag. Tilefni umræðunnar er útkoma samnefndrar bókar sem Halldóra Arnardóttir listfræðingur ritstýrir, en ásamt henni tala fjölmargir fræði- og vísindamenn á þinginu.

Hittumst í MoMA

Einn erlendu gestanna á málþinginu er Francesca Rosenberg deildarstjóri hjá fræðsludeild MoMA nútímalistasafnsins í New York. Hún mun segja frá verkefninu Meet me at MoMA sem er tileinkað alzheimer-sjúklingum en í fyrirlestri í Salnum í Kópavogi í kvöld mun Rosenberg einnig fjalla um hvernig safnið kemur til móts við sjón- og heyrnarskerta gesti sína, auk þess að segja frá verkefninu.

Fransesca var gestur Víðsjár fyrr í dag en viðtalið við hana má heyra í heild hér að ofan. 

Stækkandi hópur

„Við hjá MoMA leggjum okkur fram að þjóna öllum okkar gestum og við búum yfir mikilli reynslu þegar kemur að því að ná til þeirra sem eiga við fötlun að etja,“ segir Rosenberg. „Fjöldi þeirra sem stríða við elliglöp eykst jafnt og þétt og þessu fólki mun bara fjölga á næstu árum. Þess vegna áttuðum við á okkur að safnið þyrfti að koma til móts við þarfir þessa hóps. Við höfum því sett upp dagskrá sem snýr að þeim sem eru á fyrstu og miðstigum sjúkdómsins.“

Minningar kvikna

Rosenberg segir þau hjá safninu ekki endilega vera beint að leitast við að draga fram gamlar minningar hjá þeim sem taka þátt í verkefninu. „Myndlistin hefur samt þessi áhrif á sjúklingana, það er ýmislegt sem kviknar og kemur fram. Við tökum eftir því að það að skoða saman myndlist og ræða hana virðist virkja langtímaminnið.

Ég er á því að list sé frábær miðill til að nota í umræðu með alzheimer sjúklingum af því að hún fer ekki fram á gott minni þannig séð. Hún er bara þarna beint fyrir framan mann og við getum rætt hana fram og til baka. Sú umræða verður oft ótrúlega opin og frjó því að alzheimer-sjúklingar halda oft ekki aftur af sér þegar kemur að skoðunum. Þetta fólk opnar sig og talar frjálst.“

Mynd með færslu
 Mynd: MoMA - www.moma.org  - MoMA
Það er nóg að segja um Jackson Pollock og myndir hans í MoMA.

Virkar ekki á alla, en vel á langflesta

En nú er það svo að það eru ekki allir áhugasamir um myndlist eða hafa verið það í gegnum lífið. Hvernig eru viðbrögð þeirra?

„Það ná auðvitað ekki allir tengslum við þetta, en þeir eru fáir sem ekki gera það. Stundum kviknar áhugi fólks á myndlist sem hefur aldrei verið til staðar. Það er auðvitað frábært og sýnir okkur að þetta getur kveikt nýja reynslu og áhugamál jafnvel hjá fólki sem er farið að kljást við alzheimer. Við höfum jafnvel heyrt af myndlistaráhuga sem kviknaði með þessum hætti hjá konu sem fór að mála og endaði á því að sýna myndirnar sínar á sýningu.“

Gestirnir kenna líka margt

„Söfn geta bætt líf okkar og í starfi MoMA bjóðum við líka upp á dagskrá fyrir þá sem eru sjóndaprir eða blindir. Eins bjóðum við upp á þjónustu við fullorðna og börn sem eiga erfitt með að læra og til dæmis fyrir einhverfa.

Við sem störfum í söfnunum lærum líka af þeim sem heimsækja þau. Mér finnst ég alltaf læra eitthvað nýtt um listaverkin á safninu í gegnum þá hópa sem ég tek á móti. Þannig getur blindur einstaklingur sagt manni ýmislegt um skúlptúr sem augu mín tóku ekki endilega eftir. Söfn verða líka mikilvægari og fjölbreyttari staðir þegar gestahópurinn er fjölbreyttur.“

Viðtalið við Francescu Rosenberg úr Víðsjá má heyra hér að ofan. Hún heldur fyrirlestur um starf MoMA með alzheimer-sjúklingum í Salnum í Kópavogi í kvöld en málþingið fer fram í Ráðhúsinu og Listasafni Íslands á morgun. Allar nánari upplýsingar er að finna hér.