Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Myndlist með þögnum

Mynd:  / 

Myndlist með þögnum

31.01.2019 - 15:32

Höfundar

Á neðri hæð Hafnarborgar er sýningin Umrót eftir Mörtu Maríu Jónsdóttur. Verkin eru óhlutbundin, á mörkum teikningar og málverks og ómálaður striginn verður hluti af myndheiminum. Sýningin stendur til 3. mars.

„Ég hef verið að vinna lengi með samband teikningar og málverks. Í rauninni má segja að þau séu eins konar teiknuð málverk. Svo er annar rauður þráður í verkunum að andrúmsloftið í þeim er augnablik þar sem eitthvað er myndast og eitthvað er að eyðast. Svo eru þau öll byggð upp á svipaðan hátt. Sérstaklega minni verkin. Ég nota tóman flöt, nota mikið ómálaða fleti sem verða svona grunnstoðin í verkinu og byggja upp myndbygginguna eða verkin sem slík. Og þessu bili eða þessum ómáluðu flötum svipar til þagnar í tónlist eða bils í texta eða einhvers sem er á milli sem myndar spennuna í verkinu, í myndfletinum.

Marta segir að í verkunum sé ekki beinlínis skírskotað í ákveðin fyrirbæri úr náttúrunni. „Í rauninni myndi ég aldrei tengja við eins og fugl eða svoleiðis, það væri orðið of ákveðin lýsing eða útskýring eða eitthvað ákveðið. En það eru einhver svona tengsl við náttúruna og ég var í fyrsta skipti kannski að vinna út frá ljósmyndum að einhverju leyti, sem ég hef ekki gert áður og þá helst frekar í þessum stærri myndum þar sem er svona fantasía. Þá var ég að vinna jafnvel út frá alls kyns myndum og tók kannski lit út frá einni og eitt lítið element út frá annarri. En kannski einhverju sem tengdist náttúruhamförum eða eitthvað í þátt áttina. Það var svona allt frekar opið og ég er kannski ekkert að hugsa það sem eitthvert pólitískt innlegg. Heldur meira eitthvað svona sem ég vísa aðeins í eða nota á minn hátt. Ég vil í rauninni hafa verkin frekar opin og einhverja ljóðrænu í þeim og nota ekki titla heldur leyfi áhorfandanum að fylla upp í líka og skynja á sinn hátt.“