Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Myndlist innblásin af fornri vísindaskáldsögu

Mynd: Theresa Himmer / Hverfisgallerí

Myndlist innblásin af fornri vísindaskáldsögu

16.09.2018 - 09:00

Höfundar

Levania nefnist einkasýning Theresu Himmer sem fer fram í Hverfisgallerí um þessar mundir. Verkin á sýningunni eru innblásin af vísindaskáldsögunni Somnium, eða Draumnum, eftir þýska stjörnufræðinginn Johannes Kepler. Þessi athyglisverða saga, sem er skrifuð snemma á 17. öldinni, gerist á Íslandi, í Danmörku og á tunglinu.

„Hann leggst niður og sofnar og dreymir um íslenskan strák sem heitir Duracotus. Hann fer á skipi og endar á dönsku eyjunni Hveðn þar sem að frægi stjörnufræðingurinn Tycho Brahe var með nánast vísindakastala. Duracotus er þar að skoða stjörnurnar og himininn með sjónarhorni vísindanna með öll þau tæki sem voru notuð á þeim tíma,” segir myndlistarkonan Theresa Himmer.

Theresa er dönsk listakona af tékknesku bergi brotin, en hefur verið búsett á Íslandi undanfarinn áratug. Hún á að baki myndlistarnám frá School of Visual Arts og Whitney Museum í New York og hefur sýnt verk sín víða um heim. Áður en hún sneri sér alfarið að myndlistinni stundaði hún nám í arkitektúr í Árósum og starfaði um tíma við fagið.

„Eftir fimm ár fer hann aftur til Íslands og hittir móður sína Fioxhilde og segir henni frá því hvernig hann hefur rannsakað stjörnurnar og himininn. Hún segist líka þekkja himininn og stjörnurnar en ekki í gegnum vísindin heldur í gegnum reynsluna og blíðlyndan anda sem getur ferðast í geimnum og hefur tekið hana með. Hún kallar þennan anda til sín, þau fela andlit sín og síðan lýsir andinn draumaheiminum Levania - en það er í rauninni tunglið,” segir hún.
„Sagan lýsir tunglinu og sjónarhorni tungslins og var þess vegna áhugaverð í vísindalegu samhengi, en henni var pakkað inn í ramma vísindaskáldsögu,” segir hún. „Hann notar söguna sem miðil til að segja mjög nákvæmlega frá vísindalegum rannsóknum sínum.”

„Þetta samband Íslands og Danmerkur í sögunni og hugmyndin um að breyta um sjónarhorn fannst mér heillandi. Þetta tengist kannski minnni upplifun núna, sem hefur snúist frá því að vera að hugsa um Ísland staðsett hér og að því að hugsa um Ísland úr fjarlægð,” segir Theresa, en hún flutti nýlega aftur til Danmerkur eftir 12 ár hér á landi.

Verkin á sýningunni eru þrenns konar. Það er ljósmyndasería sem Theresa vann á eyjunni Hveðn þar sem Tycho Brahe var með sína stjörnuathugunarstöð. Hún beindi Galileó-kíki að rústum stjörnuathugunarstöðvarinnar og ljósmyndaði í svarthvítu. Myndirnir minna á einhverskonar tungllandslag eða plánetur.

Í öðru verki notar hún svokallað trivision-auglýsingaskilti sem hún notar ekki til varpa út auglýsingum heldur spegla ljós frá fjórum ljóskösturum, ljósið hreyfist þegar skiltið snýst. Ljósið varpast á önnur veggverk Theresu sem eru sjálflýsandi kort sem eru sett á milli tveggja plexíglerja.

Theresa segir áhugavert að hugsa um endurnýjaðan áhuga mannkynsins á tunglinu um þessar mundir og setja í samhengi fyrir þá neyslu- og nýtingarhyggju sem auglýsingaskiltið minnir okkur á. „Við erum að nálgast 50 ára afmæli fyrstu tungllendingarinnar og á sama tíma er aftur að kvikna áhugi á því að ferðast til tunglsins, bæði eru það þjóðir sem vilja fara í vísindalega leiðangra, en það eru líka einkaaðilar. Þannig að allt í einu er farinn að kvikna áhugi á tunglinu sem nýlendu og námu, það er verið að tala um nýta geiminn og tunglið. Það er áhugavert og mér finnst mikilvægt að hugsa um það í gagnrýni ljósi,” segir Theresa.