Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Myndi útiloka árekstra við fiskeldi

27.02.2015 - 01:25
Mynd með færslu
Fiskeldiskvíar á Vestfjörðum. Mynd:
Framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga segir brýnt að ljúka Landsskipulagsstefnu þeirri sem lengi hefur verið unnið að og veitir sveitarfélögum rétt til að skipuleggja svæði sem ná út í sjó. Árekstrar út af laxeldi í Eyjafirði hefðu aldrei orðið væri slíkri vinnu lokið.

Eins og RÚV hefur greint frá kynnti Norðanlax tillögu að matsáætlun fyrir laxeldi í Eyjafirði, með eldiskvíum út af Dysnesi. Þar var ekkert samráð var haft við skipulagsyfirvöld í Eyjafirði, en við Dysnes er áformað að gera stórskipahöfn. Fiskeldiskvíar þar eru því ekki sagðar koma til greina. Fyrir um ári gerðu Vestfirðingar áætlun um nýtingu Arnarfjarðar þar sem umsvifamikið fiskeldi fer fram. Þar er kortlagt nákvæmlega hvaða svæði í firðinum skuli nýtt og til hvers.

Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestirðinga, segir áætlunina gerða í anda Landsskipulagsstefnu stjórnvalda, sem lengi hafi verið unnið að en ekki orðið að lögum. „Fiskeldi þrýstir mjög á og fyrir svæði eins og Vestfirði, Austfirði og núna náttúrulega Eyjafjörð, er mjög brýnt að svona ný atvinnugrein geti haslað sér völl í sátt við annað atvinnulíf."

Og hann segir að slíkt lögbundið skipulag á landsvísu útiloki árekstra eins og þann sem nú hefur orðið í Eyjafirði. „Umsækjandi um fiskeldi getur skoðað viðkomandi strandsvæði séð að það er ákveðinn rammi sem er settur innan þess og getur sótt þar um leyfi,“ segir Aðalsteinn. „Og það er mjög annkannalegt að sveitarfélögin hafi í rauninni ekki skipulagsvald á svæði sem er utan við 115 metra frá stórstraumsfjöruborði eins og lögin segja í dag."