Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Myndbandi af líkamsárás dreift á netinu

05.05.2016 - 19:35
Líkamsárás gegn unglingsstúlku sem tengist einelti hefur verið kærð til lögreglu. Myndbandi af árásinni hefur verið dreift á samfélagsmiðlum. Lögreglan lítur málið alvarlegum augum og er rannsókn þess í forgangi.

Það var um kvöldmatarleytið á þriðjudagskvöld sem stúlkan var við Langholtsskóla ásamt vinum sínum. Hún hafði verið í þeim skóla fram að síðustu áramótum, þegar hún færði sig í Austurbæjarskóla. Stúlkan fékk skilaboð þar sem hún er spurð hvar hún væri stödd, svaraði því og skömmu síðar komu fjórar unglingsstúlkur þangað á bíl, tvær þeirra úr Austurbæjarskóla. Árásin var tekin upp á myndband. Andlit eru hulin þar sem gerendur og þolandi eru börn. Faðir þolandans samþykkti birtingu myndbandsins.

Á myndbandinu sést þegar tveir drengir sem voru með fórnarlambinu reyna að ganga á milli en þeim tekst ekki að stöðva barsmíðarnar.

Myndbandinu var dreift til annarra unglinga í skólanum. Stúlkan var flutt á slysadeild. Hún er aum í hnakka og baki og marin, rispuð og tognuð víða um líkamann.

Faðir fórnalambs árásarinnar, sem vildi ekki láta nafns síns getið til að vernda dóttur sína, segir að hún hafi þolað mikið einelti í Austurbæjarskóla, og stöðugt verið hótað líkamsmeiðingum. Hann gagnrýnir úrræðaleysi. Hann hafi haft samband við skólayfirvöld og meðal annars haldið fund með skólastjóra og námsráðgjafa. Það hafi ekki borið árangur. Faðirinn segir dóttur sína hafa í fjölmörg skipti hrökklast heim úr skólanum áður en skóladegi lauk vegna eineltis. Af þeim sökum hafi hún ekki mætt eðlilega í skólann síðan fyrir páska.

Ekki náðist í Kristínu Jóhannesdóttur, skólastjóra Austurbæjarskóla. Ólöf Ingimundardóttir aðstoðarskólastjóri vildi ekki tjá sig um málið þegar leitað var eftir því, og ekki heldur Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.  Fréttastofa hefur þó upplýsingar um að skólinn hafi reynt ýmis úrræði og meðal annars hafi ein stúlknana verið rekin tímabundið úr skóla.

Árásin var kærð til lögreglu í gær. Benedikt Lund lögreglufulltrúi segir þetta ljótt eineltismál og að það sé í algjörum forgangi hjá lögreglu. Um 400 mál séu í vinnslu í hans deild og þetta mál hafi verið tekið fram fyrir allt. Barnaverndarnefnd sé komin í málið, eins og í öðrum málum þar sem börn eigi í hlut, en aðeins ein stúlknanna er sakhæf. 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV