Myndband: Gæsarungi varð urriða að bráð

08.06.2016 - 20:30
Lítill gæsarungi átti sér einskis von í Laxá í Aðaldal um síðustu helgi, þegar urriði réðst að honum og reyndi að éta. Veiðimenn sem stóðu við ánna tóku eftir undarlegu háttalagi ungans og náðu myndskeiði af atvikinu.

Lífsbaráttan í náttúrunni getur verið grimm og óvægin. Þegar dýrin eiga allra síst von á, gætu þau lent í klóm rándýra. Sú varð raunin í Laxá í Aðaldal síðastliðinn laugardag.

„Við erum þarna við urriðaveiðar og tökum þar eftir gæsahópi sem var vappandi þarna á bakkanum. Þær voru eitthvað órólegar greinilega og svo þegar við komum nær þá sjáum við að það er ungi þarna í flæðarmálinu. Hann hverfur alltaf niður annað slagið en kemur upp aftur. Svo þegar við komum enn nær sjáum við að hann kemur upp liggjandi á hlið. Þá sé ég að það kemur dökkur skuggi undir og rífur hann niður enn einu sinni og þá föttuðum við það að þarna var urriði á ferð,“ segir Kristján Vilmundur Kristjánsson, veiðimaður.

Kristján reif þá upp símann til að ná myndbandi af þessum bardaga og hélt að honum væri lokið þegar fiskurinn hvarf með ungann. Hann kom hinsvegar aftur og þá náði Kristján að krækja í gæsarrungann.

„Það húkkast flugan í annan vænginn á unganum og þá kemur upp þessi slagur í smástund við bakkann og hann sleppur svo á endanum. Maður hefur heyrt sögur af þessu en aldrei nokkurn tíma dottið í hug að maður myndi verða vitni að því, hvað þá ná myndum af því,“ segir Kristján.

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi